Getum ekki alfarið kennt Hamrén um

Erik Hamrén er hann stýrði íslenska karlalandsliðinu.
Erik Hamrén er hann stýrði íslenska karlalandsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Louka Prip, leikmaður AaB frá Álaborg, segir að sænska þjálfaranum Erik Hamrén, sem var rekinn úr starfi knattspyrnustjóra í vikunni, sé ekki alfarið um að kenna um slælegt gengi liðsins í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á yfirstandandi tímabili.

AaB er á botni deildarinnar fyrir tvískiptingu hennar þar sem sex efstu liðin og sex neðstu liðin munu á næstunni etja kappi innbyrðis.

Hvorki gekk né rak hjá Hamrén, sem stýrði íslenska karlalandsliðinu árin 2018 til 2020, og var hann því látinn taka pokann sinn.

„Það er margt í þessu. Það er ekki hægt að kenna Erik um allt sem aflaga fór. Við í leikmannahópnum höfum ekki verið að standa okkur nægilega vel.

Hann kom á fót leikkerfi sem við leystum ekki nægilega vel úr. Þegar maður er ekki að ná í úrslit þá er alltaf möguleiki á því að breytingar séu gerðar,“ sagði Prip í samtali við Bold.dk.

Hamrén stýrði áður AaB og leiddi liðið til að mynda til danska meistaratitilsins árið 2008.

Spurður hvort honum hafi þótt það vera mistök að ráða Hamrén sagði Prip:

„Það finnst mér ekki. Við vorum í erfiðri stöðu þegar hann tók við og Hamrén hefur áður gengið vel hjá AaB. Í fótbolta ganga hlutirnir stundum ekki upp þannig að ég tel að það hafi ekki verið mistök.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert