Nagelsmann rekinn og Tuchel tekur við

Julian Nagelsmann hefur verið látinn taka pokann sinn.
Julian Nagelsmann hefur verið látinn taka pokann sinn. AFP/Odd Andersen

Bayern München hefur vikið Julian Nagelsmann, knattspyrnustjóra karlaliðsins, frá störfum eftir tæplega tveggja ára starf.

Bild greinir frá því að eftir nokkuð magurt gengi í þýsku 1. deildinni undanfarið, þar á meðal 1:2-tap fyrir Bayer Leverkusen um síðustu helgi, hafi forsvarsmönnum Bæjara verið nóg boðið og ákveðið að reka Nagelsmann.

Þýski miðillinn skýrir einnig frá því að Thomas Tuchel, sem var rekinn frá Chelsea í september síðastliðnum, muni taka við starfinu.

Tuchel mun taka við stjórnartaumunum á mánudag og stýra Bayern í sínum fyrsta leik gegn sínum gömlu félögum í Borussia Dortmund þann 1. apríl næstkomandi.

Dortmund er á toppi deildarinnar með eins stigs forskot á Bæjara og því verður um sannkallaðan toppslag að ræða.

mbl.is