Njarðvík Íslandsmeistari

Teitur Örlygsson kyssir hér Íslandsbikarinn. Njarðvíkingar tryggðu sér í kvöld ...
Teitur Örlygsson kyssir hér Íslandsbikarinn. Njarðvíkingar tryggðu sér í kvöld Íslandsmeistaratitilinn þegar þeir báru sigurorð af Tindastóli 76:91. Mbl.is/Golli
Njarðvík er Íslandsmeistari árið 2001 í úrvalsdeild karla í körfuknattleik. Njarðvík sigraði Tindastól örugglega, 76:91 á Sauðakróki, í fjórða leik liðanna í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn. Njarðvík sigraði í einvígi liðanna 3:1. Allir spiluðu frábærlega hjá Njarðvík í kvöld en engin þó betur en Brenton Birmingham. Hann skoraði 28 stig, tók 10 fráköst, átti 11 stoðsendingar og stal boltanum 11 sinnum. Hreint ótrúlegur leikur hjá ótrúlegum leikmanni. Framan af var leikurinn mjög spennandi og eftir fyrsta leikhluta leiddi Njarðvík aðeins með tveimur stigum, 24:26. Í öðrum leikluta var sama spennan og í hálfleik var staðan 45:48 Njarðvík í vil. Í þriðja leikhluta náði Njarðvík smá forskoti og leiddi með tíu stigum þegar fjórði leikhluti hófst. En það var þá sem skildu leiðir milli liðanna. Njarðvíkingar röðuðu niður körfununum og spiluðu mjög góða vörn og tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í 11 skipti. Logi Gunnarsson var stigahæstur hjá Njarðvík með 30 stig en hann átti hreint út sagt frábæran leik. Næstur honum í stigaskori var Brenton Birmingham með 28 stig. Hjá Tindastól var Shawn Myers stigahæstur með 27 stig og Michail Antropov skoraði 13 stig.
mbl.is