Eygló fékk bikarinn fyrir bestan árangur

Eygló Ósk Gústafsdóttir á Íslandsmeistaramótinu um helgina.
Eygló Ósk Gústafsdóttir á Íslandsmeistaramótinu um helgina. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjórir farandbikarar voru afhentir við lok Íslandsmeistaramótsins í 50 metra laug í Laugardalslauginni í kvöld og einn þeirra, Ásgeirsbikarinn, fékk Eygló Ósk Gústafsdóttir fyrir bestan árangur á mótinu sjálfu.

Bikararnir fjórir, viðtakendur þeirra og saga eru sem hér segir:

Pétursbikarinn er gefinn í minningu Péturs Kristjánssonar sundkappa úr sunddeild Ármanns. Gefandi gripsins er fjölskylda Péturs.

Pétursbikarinn er farandgripur sem er veittur árlega í karlaflokki fyrir besta afrek í sundi, samkvæmt stigatöflu FINA, unnið frá lokum íslandsmeistaramóts í 50 metra laug, sem haldið er á vegum Sundsambands Íslands, til loka næsta Íslandsmeistaramóts í 50 metra laug. 

Pétursbikarinn hlaut að þessu sinni Viktor Máni Vilbergsson úr SH fyrir 200 m bringusund sem hann synti á Smáþjóðaleikunum í maí í fyrra, 2:17,21 – 793 FINA-stig.

Kolbrúnarbikarinn er gefinn í minningu Kolbrúnar Ólafsdóttur sundkonu úr sunddeild Ármanns. Gefandi gripsins er fjölskylda og vinir Kolbrúnar. 

Kolbrúnarbikarinn er farandgripur sem er veittur árlega í kvennaflokki fyrir besta afrek í sundi, samkvæmt stigatöflu FINA, unnið frá lokum Íslandsmeistaramóts í 50 metra laug, sem haldið er á vegum Sundsambands Íslands, til loka næsta Íslandsmeistaramóts í 50 metra laug. 

Hrafnhildur Lúthersdóttir úr SH vann Kolbrúnarbikarinn að þessu sinni fyrir 50 m bringusund sem hún synti í Búdapest í júlí í fyrra, 30,71 – 884 FINA-stig.

Sigurðarbikarinn er gefinn í minningu Sigurðar Jónssonar Þingeyings. Gefandi hans er fjölskylda Sigurðar. 

Sigurðarbikarinn er farandgripur sem er veittur árlega fyrir besta afrek í bringusundi, unnið á Íslandsmeistaramóti í 50 metra laug sem haldið er á vegum Sundsambands Íslands. 

Anton Sveinn McKee úr SH vann Sigurðarbikarinn að þessu sinni fyrir 100 m bringusund á ÍM50 2018. Hann synti á 1:01,72 og fékk fyrir það 790 FINA-stig.

Ásgeirsbikarinn er gefinn í minningu Ásgeirs Ásgeirssonar, fyrrverandi forseta Íslands. Gefandi er annar fyrrverandi forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson. 

Ásgeirsbikarinn er farandgripur sem er veittur árlega fyrir besta afrek í sundi, samkvæmt stigatöflu FINA, unnið á Íslandsmeistaramóti í 50 metra laug sem haldið er á vegum Sundsambands Íslands. 

Það var Eygló Ósk Gústafsdóttir úr Neptun sem hlaut Ásgeirsbikarinn að þessu sinni fyrir 100 m baksund á ÍM50 2018. Hún synti á 1:02,45 og fær fyrir það 806 FINA-stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert