„Íþróttir voru alltaf mín versta grein“

Laufey tekur stolt við silfurverðlaunum fyrir glæsilega bekkpressulyftu, 95 kg.
Laufey tekur stolt við silfurverðlaunum fyrir glæsilega bekkpressulyftu, 95 kg. Ljósmynd/Tómas Gíslason

Mörgum Íslendingum er kanadíska borgin Calgary í fersku minni eftir Vetrarólympíuleikana árið 1988 en ekki áttu sér minni stórmerki stað þar nú um helgina þegar heimsmeistaramótið í klassískum kraftlyftingum var háð þar á bæ.

Ekki færri en sjö íslenskar kraftlyftingakonur kepptu á mótinu og var annar tveggja aldursforseta í þeim hópi Garðbæingurinn Laufey Agnarsdóttir en hún lyftir stáli á vegum Kraftlyftingafélags Reykjavíkur undir handleiðslu þjálfarans Ingimundar Björgvinssonar. Laufey hlaut silfurverðlaun í bekkpressu í M1-flokki, sem er flokkur öldunga 40 – 49 ára auk þess sem tvö Íslandsmet féllu fyrir hendi hennar, í bekkpressu og réttstöðulyftu. En hvernig kom það til að þessi dagfarsprúða og hægláta kona komst í kynni við kalt stálið?

95 kg í bekk fjúka upp sem væri stöngin tannstöngull.
95 kg í bekk fjúka upp sem væri stöngin tannstöngull. Ljósmynd/Tómas Gíslason

„Íþróttir voru alltaf mín versta grein í skóla og ég var aldrei þessi íþróttatýpa. En eins og margar konur vildi ég missa einhver kíló og vildi bara fá smá aðstoð við að koma mér í gang. Ég stundaði engar íþróttir sem barn og á fullorðinsárum hafði ég aldrei alveg fundið mína íþrótt,“ segir Laufey frá. „Ég hafði reyndar hjólað slatta og synt alltaf við og við en ekkert svona reglulega. Þegar ég byrjaði hjá Ingimundi [Björgvinssyni] fór ég ekkert strax að rífa í lóðin,“ útskýrir Laufey. „Ég þurfti að byggja mig upp fyrst og þar fór ég að finna styrkinn og hve gaman það er að mæta á æfingar og finna árangur. Ég keppti svo á mínu fyrsta móti 2013 og hef ekki stoppað enn.“

Aldurinn engin hindrun

Laufey náði eftirtektarverðum árangri um helgina, lyfti 137,5 kg í hnébeygju, 95 kg í bekkpressu og 160 kg í réttstöðulyftu og var bekkpressulyftan nýtt Íslandsmet í opnum og M1-flokki og réttstöðulyftan nýtt Íslandsmet í M1-flokki. Þar með lyfti Laufey 392,5 kg í samanlögðu um helgina sem einnig er Íslandsmet í M1-flokki og má þar með aldeilis vel við una. En er það bara eins og að drekka vatn fyrir konu sem verður 45 ára í október að lyfta tæpum 400 kg í samanlögðu á heimsmeistaramóti í kraftlyftingum?

„Nei, aldurinn er alls engin hindrun og mun aldrei verða það í klassískum kraftlyftingum. Sem dæmi horfði ég á tvær konur keppa hér í Calgary í Master 4 +84 kg aldurshópnum. Önnur er fædd 1937 og hin 1940. Báðar lyftu 112,5 kg í réttstöðulyftu í þriðju lyftu,“ segir Laufey og blæs á aldur sem hindrun í kraftlyftingum.

Allt lagt í beygjuna og 137,5 fóru upp með góðri …
Allt lagt í beygjuna og 137,5 fóru upp með góðri hvatningu úr sal enda stemmningin einstök í stálinu eins og Laufey segir frá. Ljósmynd/Tómas Gíslason

En hvað, er Laufey bara alltaf erlendis að lyfta hátt í hálfu tonni í samanlögðu? „Ég hef keppt fimm sinnum erlendis, fjórum sinnum á HM og einu sinni á EM. Kraftlyftingasambandið greiðir keppnisgjöld en annars greiði ég allan kostnað. Ég er ekki með neina styrktaraðila,“ útskýrir Laufey. Hún bætir því við að hún hafi skrifað undir landsliðssamning Kraftlyftingasambands Íslands um að taka þátt í tveimur alþjóðamótum árið 2018 sem eru EM öldunga í Helsingborg í Svíþjóð og mótið í Calgary um helgina. „Árið 2015 fékk ég fyrst að keppa fyrir Íslands hönd á HM í klassískum kraftlyftingum í M1 84 kg flokknum. Keppti árið eftir í Killeen í Texas í Bandaríkjunum og 2017 í Minsk í Hvíta-Rússlandi,“ segir Laufey frá.

Gefa hver annarri pepp þegar þarf

Hún lýsir mótinu um helgina á býsna myndrænan hátt á Facebook-síðu sinni: „Úa [Sigþrúður Erla Arnardóttir kraftlyftingakona] og Tommi [Tómas Gíslason, maður Sigþrúðar og aðstoðarmaður þeirra Laufeyjar] hrópuðu stanslaust á mig á kantinum og stöngin fór upp. Nýtt Íslandsmet í M1,“ skrifar Laufey en þess má geta að Sigþrúður setti hvort tveggja Íslands- og Evrópumet í sínum flokki um helgina og voru þær Laufey aldursforsetar íslensku kvenkeppendanna. Lýsing Laufeyjar hljómar vissulega eins og góð stemmning ríki í þessu líflega sporti. Er það svo?

„Það er frábær andi í þessari íþrótt og ég á frábæra æfingafélaga,“ segir Laufey þegar spurningin er borin upp. „Hver æfing er mótuð fyrir hvern og einn, en við hvetjum hvert annað á æfingum. Ég æfi fjórum sinnum í viku og ekki alltaf með sama fólkinu en mjög oft með Sigþrúði. Á HM hitti ég oft sama fólkið aftur og aftur og á síðasta EM Masters gerðum við lokaða Fésbókarsíðu fyrir okkar keppnishóp og eftir þetta HM mun sá Fésbókarhópur stækka,“ segir Laufey. „Þar ræðum við ýmislegt sem viðkemur æfingum, sendum myndbönd af lyftum og gefum hver annarri pepp þegar þarf,“ segir nýbakaður tvöfaldur Íslandsmeistari og silfurverðlaunahafi í bekkpressu eftir góða för til Calgary um helgina.

Valkyrjan stolt með verðlaunapeninginn frá Calgary sem var ekkert minna …
Valkyrjan stolt með verðlaunapeninginn frá Calgary sem var ekkert minna en verðskuldaður. Ljósmynd/Tómas Gíslason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert