Þriðja Íslandsmet Antons á HM

Anton Sveinn McKee á HM í 25 metra laug í …
Anton Sveinn McKee á HM í 25 metra laug í Kína 2018. Ljósmynd/Simone Costrovillari

Anton Sveinn McKee bætti verulega Íslandsmetið í 200 metra bringusundi á HM í sundi í 25 metra laug í Kína í nótt. 

Anton synti á 2:04,37 mínútum en hann átti sjálfur fyrra metið í greininni sem var 2:07,14 mínútur. Anton hafnaði í 10. sæti í greininni en um var að ræða undanúrslit og voru engar undanrásir í greininni. Átta efstu keppa til úrslita venju samkvæmt. 

Anton synti á dögunum 100 metra bringusund og setti þá Íslandsmet bæði í þeirri grein en einnig í 50 metrunum þegar hann var hálfnaður í sundinu í undanrásunum. Hefur hann þar af leiðandi sett þrjú Íslandsmet á HM en hann varð í 16. sæti í 100 metra bringu. 

Árangur Antons á HM er mjög athyglisverður en hann vinnur fulla vinnu en ólíklegt er að erlendir keppinautar hans séu í þeirri stöðu. Auk þess kallar vinnan á töluverð ferðalög sem gerir æfingar flóknari eftir því sem fram kemur á vef Sundsambandsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert