Einn sá besti neyðist tárvotur til að hætta

Breski tenniskappinn Andy Murray var tárvotur á blaðamannafundi í Ástralíu í nótt þegar hann tilkynnti að hann neyddist líklega til þess að leggja tennisspaðann á hilluna.

Murray er að undirbúa sig fyrir fyrsta risamót ársins, Opna ástralska meistaramótið, og sagði Murray að það gæti vel verið hans síðasta risamót á ferlinum. Annars stefndi hann að því að ná Wimbledon-meistaramótinu í sumar og kveðja stóra sviðið í heimalandinu.

Murray, sem er 31 árs, hefur gengið illa að jafna sig eftir að hafa gengist undir aðgerð á mjöðm. Hann hefur unnið þrjú risamót á ferlinum og verið meðal bestu tenniskappa heims síðustu ár. Hann var á toppi heimslistans um tíma.

„Ég er ekki viss um að ég geti spilað í gegnum sársaukann í 4-5 mánuði í viðbót [til þess að ná Wimbledon]. Mig langar að ná á Wimbledon og hætta þá, en er ekki viss um að ég muni ná því,“ sagði Murray á fréttamannafundi í nótt. Hann þurfti um tíma að bregða sér afsíðis til þess að jafna sig eftir að tilfinningarnar virtust ætla að bera hann ofurliði.

„Mér líður ekki vel. Ég hef verið mjög kvalinn í um 20 mánuði og reynt að gera allt sem ég get til þess að líða betur og koma mjöðminni í lag. Það hefur ekki tekist. Ég er skárri, en samt kvalinn. Ég get spilað en ekki af fullri getu. Ég mun ekki ná fyrri getu á vellinum,“ sagði Murray. Hann sagðist þurfa að huga að því að geta lifað eðlilegu lífi eftir ferilinn.

„Ég þarf að finna endapunktinn á ferlinum, því ég veit ekkert hvenær sársaukinn hættir.“

Andy Murray réð illa við tilfinningarnar á fréttamannafundi í nótt.
Andy Murray réð illa við tilfinningarnar á fréttamannafundi í nótt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert