Hildarleikur á Heysel

Frá leiknum örlagaríka árið 1985.
Frá leiknum örlagaríka árið 1985. Reuters

Á árinu sem lauk fyrir helgi (þegar greinin var skrifuð) voru þrjátíu ár liðin frá hörmungaratburði í Brussel þegar 39 Ítalir létust sem ætluðu sér að vera viðstaddir úrslitaleik Juventus og Liverpool í Evrópukeppni meistaraliða, en nafni keppninnar var síðar breytt í Meistaradeild Evrópu.

Íslendingar áttu hlýjar og góðar minningar frá Heysel-leikvanginum í þessari höfuðborg Evrópusambandsins eftir frægðarförina á EM í frjálsum 1950, þar sem Gunnar Huseby og Torfi Bryngeirsson komu heim með gullverðlaun og Örn Clausen silfurverðlaun. Eftir atburðina hinn 29. maí 1985 hefur hins vegar skuggi hvílt yfir leikvanginum í huga íþróttaáhugamanna í Evrópu.

58 þúsund manns voru samankomnir á Heysel sem ekki var í stakk búinn til þess að halda íþróttaviðburð sem þennan á þeim tímapunkti. Auk þess virtust Belgarnir ekki vera nægilega meðvitaðir um hversu margt getur farið úrskeiðis á kappleik sem þessum, sérstaklega þegar enskar fótboltabullur voru annars vegar. Þær voru mun fyrirferðameiri um miðjan níunda áratuginn en þær eru í dag og ofbeldi í kringum fótboltaleiki enskra liða var mun algengara. Hér má þó taka fram að fram að þessu höfðu stuðningsmenn Liverpool þótt haga sér betur en stuðningsmenn margra annarra enskra liða.

Öryggisgæslu ábótavant

Fyrstu mistökin sem voru gerð voru að setja einungis ómerkilega girðingu á milli harðra stuðningsmanna Liverpool og svæðis sem átti að vera hlutlaust svæði. Þar keyptu hins vegar margir Ítalir miða en ekki hörðustu stuðningsmenn Juventus. Þeir voru staðsettir annars staðar á leikvanginum. Leikurinn var ekki einu sinni hafinn þegar Englendingarnir brutu sér leið yfir girðinguna í þeim eina tilgangi að gera árás á Ítalina. Sjónarvottum sem tjáð hafa sig opinberlega ber saman um þetta og munu einhverjir Englendinganna hafa komist yfir barefli.

Ef hörðustu stuðningsmenn Juventus hefðu verið þar fyrir hefði sjálfsagt allt logað í slagsmálum á þessu svæði stúkunnar. Ítalirnir sem voru á þessu svæði urðu hins vegar logandi hræddir og tóku á rás. Atburðarásin varð ein allsherjar hörmung. Ítalskir áhorfendur krömdust upp við steinvegginn hinum megin á þessu svæði stúkunnar. Þá kom slæmt ástand Heysel-leikvangsins í ljós og gaf veggurinn sig. Áhorfendur féllu niður úr nokkurri hæð og margir hverjir tróðust einfaldlega undir þegar aðrir áhorfendur forðuðu sér. 39 týndu lífi og nokkur hundruð særðust. Samkvæmt lýsingum var öryggisgæslan allt of lítil til þess að hægt væri að skakka leikinn og sjúkraliðar voru einnig fáir í samanburði við fólksfjöldann.

Lögreglumenn reyna að koma fólki til hjálpar á Heysel árið …
Lögreglumenn reyna að koma fólki til hjálpar á Heysel árið 1985. Reuters

Leikurinn flautaður á

Leikmenn liðanna voru skikkaðir til að spila leikinn. Töluverður fjöldi áhorfenda gerði sér ekki grein fyrir því að fólk hefði týnt lífi áður en leikurinn hófst. Líklega töldu margir að um einhvers konar óeirðir hefði verið að ræða sem ekki hefðu kostað mannslíf. Leikmenn liðanna gerðu sér að einhverju leyti grein fyrir því að hörmungar höfðu átt sér stað en var sjálfsagt ekki kunnugt um atburðarásina. Knattspyrnumaður ársins í Evrópu á þeim tíma, Frakkinn Michel Platini, skoraði eina mark leiksins úr umdeildri vítaspyrnu sem Pólverjinn Zbigniew Boniek fékk. Juventus rauf þar með sigurgöngu Liverpool í keppninni en þegar leikmenn liðanna gerðu sér grein fyrir því sem gerst hafði, þá stóð þeim líklega á sama um úrslitin.

Fimm ára bann

Hildarleikurinn á Heysel-leikvanginum dró dilk á eftir sér í margvíslegum skilningi. Enskum félagsliðum var meinuð þátttaka af UEFA í Evrópukeppnum í fimm ár. Þáverandi forsætisráðherra Bretlands, járnfrúin Margaret Thatcher, lét sverfa til stáls gegn fótboltabullum á Bretlandseyjum. Atburðirnir í Belgíu voru kornið sem fyllti mælinn. Aðgerðir ríkisstjórnar hennar voru allt annað en vinsælar á þeim tíma og upplifðu margir í fótboltanum á Englandi þær sem árásir á íþróttina.

Tíminn hefur hins vegar leitt í ljós að aðgerðirnar báru árangur. Í það minnsta er umfang vandans miklu minna en áður þótt fótboltabullur finnist enn á Englandi. Vandamálið er miklu minna um sig. Fram á níunda áratuginn voru heilu borgirnar í hálfgerðri gíslingu alla laugardaga vegna ofbeldis. Fyrir utan tilheyrandi kostnað vegna löggæslu. Vinsældir fótboltans voru líklega í sögulegu lágmarki, ekki síst af þessum sökum. Fjölskyldufólk sótti fótboltaleiki í minna mæli enda fáir þar að leita sér Að skemmtun.

Breytingar á leikvöngum

Síðar urðu frekari breytingar á leikvöngunum þar sem allir fengu sæti í stað þess að standa og ýmislegt fleira mætti tína til. Íþróttin náði vopnum sínum og er gríðarlega vinsæl á Englandi um þessar mundir. Fótboltabullur heyra ekki sögunni til en er orðinn fámennari hópur og einangraðri. Þegar stórmót eru haldin er sá hópur frá Englandi ekki endilega verri en slíkir hópar frá öðrum þjóðum.

Aðgerðirnar sem miðuðust við að hemja fótboltabullurnar voru teknar eftir að Thatcher boðaði átta íþróttablaðamenn á sinn fund. Allir höfðu þeir verið á leiknum á Heysel og gátu lýst því sem þeir urðu þar vitni að. Málflutningur þeirra hafði væntanlega nokkur áhrif á afstöðu ríkisstjórnarinnar en forkólfar enska knattspyrnusambandsins á þeim tíma, virtust ekki vilja grípa til umfangsmikilla aðgerða eða skorta kjarkinn.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu hinn 4. janúar 2016. 

Michel Platini skorar eina mark leiksins fyrir Juventus úr vítaspyrnu. …
Michel Platini skorar eina mark leiksins fyrir Juventus úr vítaspyrnu. Sendi Bruce Grobbelaar í hægra hornið frá sér séð en skaut í það vinstra. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert