Þú uppskerð eins og þú sáir

Már Gunnarsson
Már Gunnarsson Ljósmynd/ÍF

Már Gunnarsson náði ótrúlegum árangri um nýliðna helgi þegar hann synti undir þremur gildandi heimsmetum á Íslandsmóti Íþróttasambands fatlaðra í 25 metra laug en mótið, sem var hluti af Íslandsmeistaramóti SSÍ, fór fram í Ásvallalaug í Hafnarfirði.

Már synti á tímanum 33,17 í 50 metra baksundi, kom í mark á tímanum 1:11,85 í 100 metra baksundi og synti á tímanum 2:34,57 í 200 metra baksundi. Már keppir í fötlunarflokki S11, flokki blindra, en heimsmetin verða að öllum líkindum staðfest á næstu vikum.

„Það er mögnuð tilfinning að hafa slegið öll heimsmet í baksundi í 25 metra laug. Þetta er fyrst og fremst frábær árangur en ég ætla mér ekki að dvelja of lengi við þetta því það er margt á döfinni hjá mér. Þessi árangur kom mér vissulega á óvart en hann sýndi mér jafnframt að ég er á réttri leið. Eins og ég hef áður sagt þá er markmiðið að vinna til gullverðlauna í 100 metra baksundi á Paralympics í Tókýó 2020. Að slá þessi heimsmet var frábært og allt það en þetta var líka liður í þeirri vegferð sem ég er kominn á.“

Már stóð sig frábærlega á HM í London í september á þessu ári þar sem hann sló tíu Íslandsmet og vann til bronsverðlauna í 100 metra baksundi.

Óvenjulegur undirbúningur

„Undirbúningurinn fyrir þetta mót var öðruvísi en oft áður. Það er ekki langt síðan ég var á HM í London og ég var því í góðu sundformi. Ég einbeitti mér því aðallega að tækni- og þolæfingum í aðdraganda Íslandsmeistaramótsins. Ég æfði í kringum tvo til þrjá tíma á dag og ég á von á því að næst þegar ég mæti til keppni í þessum greinum verði árangurinn ennþá betri því markmiðið er að byrja að æfa af fullum krafti núna í næstu viku.“

Sjá allt viðtalið við Má á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert