„Kálar frjálsum íþróttum“

Yohan Blake, fyrrverandi heimsmeistari í 100 metra hlaupi.
Yohan Blake, fyrrverandi heimsmeistari í 100 metra hlaupi. AFP

Alþjóðafrjálsíþróttasambandið hefur ákveðið að fækka greinum á Demantamótum til þess að ráða betur við 90 mínútna sjónvarpsútsendingar. 

Fjórar greinar virðast fara verst út úr þessu og er gert ráð fyrir tólf greinum í hverju móti en um er að ræða fimmtán Demantamót. 

Greinarnar fjórar eru 200 metra hlaup, 3 þúsund metra hindrunarhlaup, kringlukast (keppnisgrein Guðna Vals Guðnasonar) og þrístökk. Fram hefur komið að þessar greinar verði alla vega ekki í boði á öllum fimmtán mótunum. Fyrir liggur að ekki verður keppt í þeim á lokamótinu í Zürich í september. 

Demantamótaröðin 2020 fer af stað í Doha 17. apríl. 

Spretthlauparinn Yohan Blake frá Jamaíka hefur brugðist harkalega við tíðindunum. „Allar greinar eru mjög mikilvægar. Ferill þessa íþróttafólks er undir. Á þessum mótum nær það í sínar tekjur.“ 

Sebastian Coe er forseti Alþjóðasambandsins en jafnframt stjórnarformaður fyrir Demantamótaröðina. Hann segir tilganginn með þessu vera að búa til hraðari og meira spennandi viðburð. 

Blake gefur lítið fyrir rök Coe og sendir honum tóninn: „Þetta er heimskuleg aðgerð. Hann ætti að grípa utan um frjálsar íþróttir en þess í stað kálar hann þeim.“

mbl.is