Eina konan með ólympíuverðlaun flúði land

Kimia Alizadeh ásamt föður sínum á flugvellinum í Teheran eftir …
Kimia Alizadeh ásamt föður sínum á flugvellinum í Teheran eftir að hún hlaut ólympíubronsið í Ríó. AFP

Eina konan, sem hefur unnið til verðlauna á Ólympíuleikum fyrir hönd Írans, hefur flúið land. Kimia Alizadeh skýrði frá þessu á samfélagsmiðlum og kvaðst ekki lengur vilja taka þátt í hræsni, lygum, óréttlæti og skorti á jafnrétti.

„Ég er ein af milljónum kúgaðra kvenna í Íran,“ skrifaði hin 21 árs gamla Alizadeh sem sló í gegn á Ólympíuleikunum í Ríó árið 2016 þegar hún hreppti bronsverðlaun í taewkondo.

Hún segir að yfirvöld í Íran hafi notað árangur hennar í áróðursskyni. „Ég er í hópi milljóna kúgaðra kvenna í Íran sem þeir hafa nýtt að vild sinni um áraraðir. Ég klæddist því sem þeir sögðu mér og sagði það sem þeir sögðu mér að segja. Við skiptum þá engu máli, við vorum bara verkfæri í þeirra höndum,“ sagði Alizadeh.

Hún hefur ekki skýrt frá því hvar hún er niður komin en fram hefur komið að hún hafi stundað æfingar í Hollandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert