Nepo efstur á áskorendamótinu í skák

Nepo.
Nepo. Ljósmynd/Maria Emelianova/Chess.com

Rússneski stórmeistarinn Jan Nepomnjasjtsjí er einn efstur á áskorendamótinu í skák sem er haldið í Jekaterínborg í Rússlandi. Hann lagði Kínverjann Wang Hao í fimmtu umferðinni sem fram fór í dag og er með þrjá og hálfan vinning. Í öðru sæti er franski stórmeistarinn Maxime Vachier-Lagrave með þrjá vinninga. 

Öðrum skákum lauk með jafntefli í fimmtu umferð og slapp áskorandinn úr síðasta heimsmeistaraeinvígi, bandarísk-ítalski Fabiano Caruana, með skrekkinn en hann stóð höllum fæti gegn Hollendingnum Anish Giri. Giri var ekki nógu beittur í sókn sinni, en hann gerði jafntefli í öllum fjórtán skákum sínum þegar hann tefldi á sínu síðasta áskorendamóti fyrir fjórum árum. Átta keppendur tefla á mótinu og tefld er tvöföld umferð. 

Mótinu á að ljúka 3. apríl, en ef einhver keppenda sýkist af kórónuveirunni verður mótinu frestað og það klárað síðar. Sigurvegarinn á áskorendamótinu mun tefla heimsmeistaraeinvígi við Norðmanninn Magnus Carlsen seinni hlutann á árinu. Sjötta umferð hefst á morgun klukkan 11 að íslenskum tíma og er hægt að fylgjast með mótinu á fjölmörgum vefsíðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert