Vil nýta mér góða formið

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir.
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum fór fram í 94. skipti um helgina. Keppt var á Þórsvelli á Akureyri. Átti mótið upprunalega að fara fram í Kópavogi en var fært þar sem Kópavogsvöllur var ekki klár í tæka tíð.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, Íslandsmethafi í 100 og 200 metra hlaupum, varð fjórfaldur Íslandsmeistari. Kom hún fyrst í mark í 100 og 200 metra hlaupum og þá var hún hluti af 4x100 og 4x400 metra boðhlaupssveitum ÍR sem báru sigur úr býtum. Guðbjörg var nokkuð frá Íslandsmetum sínum, en hún var sátt við árangurinn miðað við aðstæður, en nokkuð kalt var á Akureyri um helgina.

Stífnar upp í þessum kulda

„Miðað við veður og aðstæður er þetta mjög fínt. Það var mjög kalt, undir tíu gráðum, og í flestum löndum er ekki æft og hvað þá keppt nema það sé að minnsta kosti 15 gráðu hiti. Við Íslendingar skerum okkur svolítið út hvað varðar að keppa úti á stuttbuxum og í toppi í hvaða veðri sem er. Þetta er mjög góð braut og mjög gaman að keppa á Akureyri en maður stífnar svolítið upp í þessum kulda.

Þegar það er hiti er maður mýkri og þarf að hafa minna fyrir hlutunum,“ sagði Guðbjörg í samtali við Morgunblaðið. Það hafði ekki mikil áhrif á undirbúninginn að mótið var fært með stuttum fyrirvara. „Það eina var að maður þurfti að redda gistingu með stuttum fyrirvara, en það redduðu þessu allir. Það er alltaf gaman að fara eitthvað annað að keppa,“ sagði Guðbjörg.

Viðtalið við Guðbjörgu má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert