„Miklu lengra en ég bjóst við“

Guðni Valur Guðnason.
Guðni Valur Guðnason. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

„Þegar maður hefur strögglað svona mikið við að kasta langt, og allt smellur loksins saman í frábærum aðstæðum, þá fer það langt,“ sagði Guðni Valur Guðnason þegar mbl.is hafði samband við hann en Guðni sló 31 árs gamalt Íslandsmet í kringlukasti í dag. 

„Það var hliðarvindur og aðeins á móti sem gerir kringlunni kleift að svífa betur. Í Laugardalnum er einnig mikill trjágróður og skýldi mér fyrir vindinum á meðan ég var að kasta. Mér leið í kasthringnum eins og það væri logn en þegar maður sleppti kringlunni sá maður að vindurinn hafði áhrif,“ sagði Guðni um aðstæðurnar í dag en veður var ansi haustlegt í höfuðborginni.

„Þetta er bara frábært og er miklu lengra en maður bjóst við að kasta í dag,“ sagði Guðni sem skyndilega er orðinn líklegur til að komast á Ólympíuleikana í Tókýó á næsta ári eftir að hafa glímt við meiðsli síðustu tvö árin eða svo.

Kast Guðna, 69,35 metrar, er það fimmta lengsta í heiminum í ár sem er magnaður árangur í svo rótgróinni íþróttagrein. Ólympíulágmarkið er 66 metrar en hægt verður að takast á við lágmarkið eftir 1. desember. 

„Já það er skrítið að ég virðist geta komið úr meiðslum og kastað langt. Það hefur gerst áður þótt ég væri ekki í keppnisformi,“ sagði Guðni sem áður hafði kastað lengst 65,53 metra og bætti sig því sinn besta árangur gífurlega mikið.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert