Fjórir Íslendingar til Tókýó

Fulltrúar Íslands í Tókýó.
Fulltrúar Íslands í Tókýó. Ljósmynd/Íþróttasamband fatlaðra

Stjórn Íþróttasambands fatlaðra hefur valið þá fjóra einstaklinga sem verða fulltrúar Íslands á Ólympíumóti fatlaðra í Tókýó í ágúst- og septembermánuði.

Frjálsíþróttafólkið Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir og Patrekur Andrés Axelsson frá FH og sundfólkið Már Gunnarsson frá ÍRB og Thelma Björg Björnsdóttir frá ÍFR keppa fyrir hönd Íslands í Japan. Öll fjögur eru á meðal þeirra sem með árangri sínum áunnu Íslandi þessi fjögur sæti við leikana.

Mótið fer fram dagana 24. ágúst til 5. september en þess má geta að enn er von um að Ísland geti átt fleiri keppendur við leikana. Í júlíbyrjun skýrist það hvort bogfimimaðurinn Þorsteinn Halldórsson nær að skjóta sér leið inn á leikana þegar hann keppir á lokaúrtökumóti fyrir ólympíumótið í Tékklandi.

Þorsteinn keppti í bogfimi á leikunum í Ríó de Janeiro í Brasilíu 2016 og varð þá fyrsti bogfimikeppandi Íslands í sögunni. Eins hefur Íþróttasamband fatlaðra þegar lagt inn umsóknir fyrir fleira afreksfólk í ljósi árangurs þess og er beðið svara við umsóknunum.

Af þeim fjórum keppendum sem valdir hafa verið til verkefnisins eru Bergrún, Már og Patrekur öll að fara að keppa á sínum fyrstu leikum en Thelma Björg synti fyrir Íslands hönd í Ríó 2016.

mbl.is