Ef marka má áhorfendatölur frá bæði Bandaríkjunum og Evrópu var áhugi á Ólympíuleikunum í Tókýó með minnsta móti. Svo lítið var áhorfið á leikana að meðaltali að það hefur ekki verið minna í 33 ár í Bandaríkjunum eða frá leikunum í Seúl árið 1988. Áhorfið var 42% minna en á leikana í Ríó 2016 og meira en helmingi minna en á leikana í London 2012.
Benda má á að mikill tímamunur er á milli Japans og Bandaríkjanna og því viðbúið að færri stilltu á leikana á ókristilegum tíma eða horfðu á endursýningar á kvöldin. Tímamunurinn var þó svipaður þegar leikarnir fóru fram í Peking árið 2008 en þá var áhorfið mikið, raunar meira en á leikana fyrir fimm árum.
Umræðan í aðdraganda leikanna nú var nokkuð neikvæð og mikið rætt um að Japanir væru margir, jafnvel flestir, mótfallnir því að halda leikana enda hefur baráttan við kórónuveiruna reynst þjóðinni erfið á þessu ári. Gæti það hafa haft einhver áhrif á áhorfið enda var rætt og ritað um slæm áhrif þess á íbúa gestgjafaborgarinnar að halda leikana. Þá var alþjóðaólympíunefndin sökuð um spillingu og það að bera ekki hag íþróttamannanna sem keppa á leikunum fyrir brjósti.
Mestu áhrifin voru þó líklega af kórónuveirunni og þeim bletti sem hún setti á framkvæmd leikanna. Engir áhorfendur voru leyfðir á leikunum og keppendur þurftu að bera grímu öllum stundum nema rétt á meðan þeir kepptu.
Þegar stærstu íþróttakeppnir heims fóru af stað í fyrrasumar og -haust voru bundnar vonir við að aðdáendur sætu límdir við skjáinn. Fólk hafði ekki fengið að sjá íþróttakeppni í beinni útsendingu síðan í mars það ár og héldu margir að það myndi svala uppsöfnuðum íþróttaþorsta sínum með miklu áhorfi, enda fjöldi fólks mikið heima við með lítið fyrir stafni.
Það reyndist þó ekki raunin því í Bandríkjunum minnkaði áhorf á stórviðburði eins og lokaúrslit NBA- og NHL-deildanna um 49 og 61% frá árinu á undan. Raunar minnkaði áhorf á flesta stóra íþróttaviðburði í Bandaríkjunum haustið 2020 um að minnsta kosti 25%.
Ekki er ljóst af hverju áhorf á íþróttaviðburði minnkaði með þessum hætti eftir að þeir fóru af stað eftir hléið. Ein ástæðan gæti verið sú að of margir viðburðir fóru fram á sama tíma. Vegna frestana fór það svo að úrslit fóru fram í deildum að hausti sem vanalega fara fram að vori eða í byrjun sumars. Mörgum viðburðum var því troðið á sama tímabilið til að klára þær keppnir sem átti eftir að klára. Fólk hafði einfaldlega ekki tíma til að horfa á alla þessa viðburði á svo skömmu tímabili. Gögnin renna stoðum undir þessa kenningu enda var heildaríþróttaáhorf í fyrrahaust svipað og það hafði verið árið áður.
Meira liggur þó að baki eins og sást kannski best á því að Ofurskálin, einn vinsælasti íþróttaviðburður hvers árs í heiminum og sá vinsælasti í Bandaríkjunum, fékk sitt minnsta áhorf í 14 ár í byrjun febrúar. Ein kenningin er sú að íþróttir snúist um félagslega tengingu áhorfenda, ekki einungis íþróttina sjálfa. Þegar fólk gat ekki hist í jafnmiklum mæli og áður dó umræðan í kringum íþróttirnar að einhverju leyti. Því var ekki eins spennandi að horfa og þegar fólk hittist í vinnunni eða á förnum vegi og ræddi leiki helgarinnar eða næstu daga.
Nánar er fjallað um áhorf á íþróttir í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.