Valgerður vann í Svíþjóð

Valgerður Guðsteinsdóttir.
Valgerður Guðsteinsdóttir.

Valgerður Guðsteinsdóttir, fyrsta og eina atvinnuhnefaleikakona landsins, hafði betur gegn hinni maltnesku Claire Sammut á boxkvöldi í Jönköping í Svíþjóð í gærkvöldi.

Valgerður var að keppa sinn fyrsta bardaga í að verða þrjú ár, eða síðan í mars árið 2019, og hafði sigur í gærkvöldi eftir einróma dómaraákvörðun.

Samkvæmt dómurunum þremur vann hún fimm af sex lotum hjá tveimur dómurum en fjórar af sex hjá þriðja dómaranum.

Sigurinn var sérlega sætur fyrir Valgerði þar sem hún fór úr lið á þumalfingri á hægri hönd strax í fyrstu lotu. Valgerður þurfti því að reiða sig meira á vinstri höndina en hún hafði lagt upp með.

Í sjö atvinnumannabardögum er Valgerður nú búin að vinna fimm og tapa tveimur.

mbl.is