Ég er ekki 21 árs lengur

Rafael Nadal fagnar sigrinunm á Denis Shapovalov í morgun.
Rafael Nadal fagnar sigrinunm á Denis Shapovalov í morgun. AFP

Spænski tennismaðurinn Rafael Nadal er kominn í undanúrslit á stórmóti í 36. skipti eftir að hafa lagt Denis Shapovalov frá Kanada að velli í hörkuleik í morgun í átta manna úrslitum Opna ástralska mótsins í Melbourne.

Nadal komst í 2:0 með því að vinna fyrstu settin 6:3 og 6:4 og virtist stefna í öruggan sigur. Shapovalov var á öðru máli, vann næstu tvö 6:4 og 6:3, og þar með var allt jafn fyrir úrslitasettið. Þar var Nadal hinsvegar kominn með undirtökin á ný og vann 6:3 eftir fjögurra klukkutíma baráttu sem tók sinn toll af keppendum.

„Ég er ekki 21 árs lengur," sagði Nadal við áhorfendur um leið og sigurinn var í höfn. Hann mætir nú annaðhvort Matteo Berettini eða Gael Monfils í undanúrslitunum.

Nadal skýrði frá því eftir leik að sér hefði liðið illa í maganum í þriðja settinu og tekið verkjatöflur til að komast í gegnum það. 

Nadal stefnir á sinn 21. sigur á stórmóti en með því færi hann fram úr Novak Djokovic og Roger Federer sem hafa eins og hann unnið tuttugu stórmót á ferlinum.

mbl.is