Fyrsta ólympíumedalían var gull

Ryoyu Kobayashi fagnar ólympíugullinu í dag.
Ryoyu Kobayashi fagnar ólympíugullinu í dag. AFP

Japaninn Ryoyu Kobayashi vann frækinn sigur í úrslitum skíðastökks karla á Vetrarólympíuleikunum í Peking í dag. Þetta er í fyrsta sinn sem Kobayashi vinnur til verðlauna á Ólympíuleikum og reyndist fyrsti verðlaunapeningurinn vera gull.

Kobayashi náði frábæru stökki strax í fyrstu umferð þar sem hann hlaut 145,4 stig, sem lagði grunninn að sigrinum þar sem hann fékk talsvert færri stig í lokaumferðinni, 129,6.

Samtalst hlaut hann því 275 stig og skákaði hann Austurríkismanninum Manuel Fettner sem náði samtals 270,8 stigum og vann til silfurverðlauna.

Í þriðja sæti var Pólverjinn Dawid Kubacki. Fékk hann samtals 265,9 stig og krækti í brons.

Kobayashi tók einnig þátt í skíðastökki karla á Vetrarólympíuleikunum í PyeonChang í Suður-Kóreu fyrir fjórum árum og náði þar aðeins sjöunda sæti. Bætingin er því gífurleg hjá hinum 25 ára gamla Japana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert