Gunnar fékk nýjan andstæðing

Gunnar Nelson er kominn með nýjan andstæðing.
Gunnar Nelson er kominn með nýjan andstæðing. Ljósmynd/Snorri Björns

Bardagakappinn Gunnar Nelson hefur fengið nýjan andstæðing eftir að Brasilíumaðurinn Claudio Silva dró sig úr fyrirhuguðum bardaga gegn Gunnari á UFC-kvöldi í London þann 19. mars vegna meiðsla.

Þess í stað mun Gunnar mæta hinum japanska Takashi Sato. Verður þetta fyrsti bardagi Gunnars í tvö og hálft ár en hann tapaði síðast fyrir Gilbert Burns í september 2019.

Gunnar hefur átt erfitt uppdráttar í búrinu að undanförnu og tapað þremur bardögum af síðustu fjórum. Sato hefur fjórum sinnum barist í UFC og unnið tvo bardaga og tapað tveimur.

Alls hefur Japaninn barist 20 sinnum, unnið 16 bardaga og tapað fjórum. Gunnar hefur barist 23 atvinnumannabardaga, unnið 17 og tapað fimm.

Í UFC er barist í blönduðum bardagalistum, oftast kallað MMA. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert