Ég er heppinn að fá að spila með þeim

Andri Már Mikaelsson í baráttunni í dag.
Andri Már Mikaelsson í baráttunni í dag. Ljósmynd/Stefán Örn Sigurðsson

Andri Már Mikaelsson leikmaður íslenska landsliðsins í íshokkí var ánægður með 10:2-stórsigur gegn Búlgaríu í opnunarleik B-riðils 2. deildar HM í Laugardalnum í dag.

„Ég er bara ánægður með að klára þennan fyrsta leik, sem við áttum á blaði að vinna. Gott fyrir ungu strákana að fá sín fyrstu skref í svona leik.“

Næsti leikur Íslands í mótinu er gegn Georgíu og segist Andri eiga von á talsvert sterkari andstæðing þar.

„Síðast þegar við spiluðum gegn þeim töpuðum við eftir að hafa verið 3:0 yfir. Þeir eru með nokkra eldri leikmenn sem eru flinkir í hokkí og við þurfum að passa þá. Þeir skora flest mörkin sín einum fleiri svo við megum ekki vanmeta þá neitt.“

Með landsliðinu leikur Andri m.a. með liðsfélögum sínum til fjölmargra ára hjá Skautafélagi Akureyrar, þeim Jóhanni Má Leifssyni og Hafþóri Andra Sigrúnarsyni. Saman hafa þeir unnið aragrúa af titlum og virðast vera farnir að þekkja heldur betur vel inn á hvorn annan.

„Við pössum vel saman, það er enginn okkar eins. Jóhann er náttúrlega fáránlega góður í íshokkí og Hafþór er markahæsti leikmaður deildarinnar í vetur. Ég er bara heppinn að fá að spila með þeim,“ sagði Andri Már og hló.

Riðill Íslands er haldinn í heild sinni í skautahöllinni í Reykjavík. Andri segir heimavöllinn skipta miklu máli.

„Algjörlega. Vonandi sjáum við bara ennþá fleiri í stúkunni. Við heyrðum aðeins í henni í dag en við viljum bara fá fleiri, þetta er geggjað.“

Andri hefur unnið fjöldan allan af titlum með SA.
Andri hefur unnið fjöldan allan af titlum með SA. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert