Akureyringar í fjórða sinn í Evrópukeppni

Íslandsmeistarar SA hefja leik í Búlgaríu í kvöld.
Íslandsmeistarar SA hefja leik í Búlgaríu í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Karlalið Skautafélags Akureyrar hefur leik í Evrópukeppninni Continental Cup í fjórða sinn í sögu félagsins í dag þegar liðið mætir Sofiu frá Búlgaríu í borginni Sofíu.

Í keppninni mætast meistaralið Evrópu frá síðasta keppnistímabili en átta lið frá átta löndum taka þátt í 1. umferð keppninnar þar sem leikið verður í tveimur fjögurra liða riðlum.

Akureyringar mæta Tartu Valk frá Eistlandi, Sisak frá Króatíu og loks Sofiu en sigurvegari riðilsins kemst áfram í 2. umferð keppninnar.

Akureyringum hefur einni sinni áður tekist að komast áfram í 2. umferð keppninnar en liðið mætir Sofiu í dag eins og áður sagði, Sisak á morgun og loks Tartu Valk á sunnudaginn.

mbl.is
Loka