Aðeins 3,4% keppenda komust inn á Evrópumótaröðina

Birgir Leifur Hafþórsson.
Birgir Leifur Hafþórsson. Reiters

Martin Wiegele frá Austurríki sigraði á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina í golfi en hann lék 108 holur á samtals 11 höggum undir pari. Alls tóku 156 kylfingar þátt á lokaúrtökumótinu og aðeins 30 efstu tryggðu sér keppnisrétt á næst sterkustu mótaröð heims. Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG var einn af þessum 30 sem komust í gegnum „nálaraugað“ en úrtökumótin hafa staðið yfir frá því í október. Alls reyndu 879 kylfingar sig á úrtökumótunum í ár og það eru því aðeins 3,4% líkur á því að komast í gegnum öll þrjú stig úrtökumótsins.

Fimm íslenskir kylfingar reyndu fyrir sér á 1. stig úrtökumótsins, Heiðar Davíð Bragason, Magnús Lárusson, Sigurpáll Geir Sveinsson, Ottó Sigurðsson og Örn Ævar Hjartarson. Þeir komust ekki í gegnum 1. stigið. Birgir Leifur lék á 2. stig úrtökumótsins og sigraði á einum af fjórum keppnisvöllum 2. stigsins.

Sjöland fékk örn sem skilaði sínu

Það voru margir sem upplifðu mikil vonbrigði í dag að loknum sjötta og síðasta keppnisdegi á úrtökumótinu á Spáni. Sænski kylfingurinn Patrik Sjöland bjargaði sér fyrir horn með því að fá örn á þriðju síðustu holu dagsin en þar sló hann boltann ofaní af um 120 metra færi í þriðja höggi. Sjöland lék samtals á þremur höggum undir pari og endaði hann í 22.-30. sæti. Sjöland er vel þekktur á Evrópumótaröðinni en hann var í fimmta sæti peningalistans árið 1998 og hann hefur tvívegis fagnað sigri á mótum á Evrópumótaröðinni.

Dýrkeypt að tapa fimm höggum á þremur síðustu holunum

Doug McGuigan frá Suður-Afríku á eflaust eftir að sofa illa í nótt en hann var einu högg frá því að komast í hóp 30 efstu. McGuigan tapaði tveimur höggum á tveimur síðustu holunum og endaði hann mótið á 2 höggum undir pari. Enski kylfingurinn Stuart Davis upplifði það sama en hann var 5 höggum undir pari samtals þegar hann átti þrjár holur eftir. Hann lék síðustu þrjár holur mótsins á 5 höggum yfir pari og endaði á pari vallar.

Tapaði 8 höggum á lokahringnum en slapp í gegn

Thomas Aiken frá Suður-Afríku var í síðasta ráshópnum ásamt Wiegele í dag en Aiken var á 11 höggum undir pari eftir fimm keppnisdaga. Aiken lék mjög illa á lokahringnum þar sem hann tapaði 8 höggum og rétt slapp hann við að komast ekki í hóp 30 efstu en hann endaði á 3 höggum undir pari í 22.-30. sæti.

Siem brotnaði saman í mótslok

Í hópi þeirra sem voru á 3 höggum undir pari eru tveir kylfingar sem hafa sigrað á Evrópumótaröðinni, Phillip Golding og Marcel Siem. Á heimasíðu Evrópumótaraðarinnar er sagt frá því að Siem hafi brotnað saman í mótslok þegar hann gerði sér grein fyrir því að hann væri á meðal þeirra sem tryggðu sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni. Siem vann sér inn 16,7 milljónir kr. á síðasta tímabili en það skilaði honum aðeins í 136. sæti peningalistans.

19,4 milljónir í verðlaunafé dugði ekki til

Enski kylfingurinn Lee Slattery var einn af þeim sem fagnaði vel eftir að keppni lauk en hann endaði í þriðja sæti úrtökumótsins á 9 höggum undir pari vallar. Slattery lék á Evrópumótaröðinni á síðasta tímabili og vann hann sér inn 19,4 milljónir kr. á síðasta tímabili en hann var um 7.000 kr. frá 115. sætinu sem hefði tryggt sjálfkrafa keppnisrétt á næsta tímabili. Slattery varð því að leika á lokaúrtökumótinu þrátt fyrir að hafa endað í 118. sæti peningalistans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert