Árangurinn kemur ekki á óvart

Jussi Pitkänen. Afreksstjóri GSÍ.
Jussi Pitkänen. Afreksstjóri GSÍ. Ljósmynd/GSÍ

„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá kemur mér alls ekki á óvart að Haraldur skuli hafa náð svona langt, og ég lít á þátttöku hans á Opna breska meistaramótinu sem eðlilega framvindu á keppnisferli hans. Haraldur stefndi að því að komast á endanum á þetta mót og var nægilega sterkur á heimslista til að eiga möguleika á að vinna sér inn keppnisrétt (með þátttöku í úrtökumóti).“

Þannig svarar Jussi Pitkänen afreksstjóri og þjálfari hjá Golfsambandi Íslands þegar hann er spurður hversku merkilegur honum þykir árangur Haralds Franklín Magnús í golfíþróttinni.

Eins og greint hefur verið frá hófst Opna breska meistaramótið í gær á Carnoustie vellinum. Haraldur átti fínan fyrsta hring og var einu höggi yfir pari á þessum krefjandi skoska velli.

„Ég vil alls ekki gera lítið úr því hve mikið afrek það er að komast á Opna breska, og finnst ekki nokkur vafi á að það verður frábær reynsla fyrir Harald að taka þátt í þessu móti, en þegar upp er staðið þá er þetta bara ein keppni af mörgum og liður í því að koma Haraldi inn í Evrópumótaröðina,“ segir Jussi.

Haraldur Franklín Magnús á 10. braut á Carnoustie í gær.
Haraldur Franklín Magnús á 10. braut á Carnoustie í gær. AFP

Ætti að vera eðlilegt fyrir Ísland

„Hvað mig varðar finnst mér að við ættum að reyna að venjast því að tala um þátttöku íslenskra kylfinga í mótum af þessu tagi og ræða opinskátt um árangur þeirra svo að það verði „eðlilegt“ fyrir Ísland að eiga fulltrúa á svona mótum. Íslenskir kylfingar eru að komast á þennan stað í í þróttinni og sem dæmi um hvert stefnir þá er útlit fyrir að við munum eiga þrjá fulltrúa á Breska áhugamannamótinu fyrir drengi sem er í næsta mánuði, og ungir íslenskir kylfingar hafa þegar náð mjög góðum árangri á mótum ungmenna í Skotlandi og á Írlandi.“

Eins og nafnið gefur til kynna er Jussi fæddur í Finnlandi en fluttist til Írlands með fjölskyldu sinni 9 ára gamall. Þar byrjaði Jussi að stunda golf og hóf síðar að vinna við íþróttina, einkum á sviði þjálfunar og fræðslu. Nýlega flutti hann til Spánar og býr þar með konu sinni og syni. Jussi var ráðinn sem afreksstjóri GSÍ í janúar 2017 en starfið var auglýst um allan heim.

Jussi Pitkänen telur að Haraldur Franklín Magnús hafi alla burði …
Jussi Pitkänen telur að Haraldur Franklín Magnús hafi alla burði til að ná langt.

Viss um að hann hefur hugarfarið

Aðspurður hvort Íslendingar geti vænst mikils af Haraldi í framtíðinni segir Jussi að hann sé á réttri leið. „Á síðasta ári lenti hann í 8. sæti í Norrænu golfmótaröðinni, Nordic tour, og það eftir að hafa ekki staðið sig nægilega vel (að hans eigi mati) á síðari helmingi keppnistímabilsins. Mér þykir mikið til þess koma hve vel hann er að sér um eigin styrkleika og veikleika en það er eiginleiki sem getur skipt sköpum fyrir kylfinga í fremstu röð sem hafa engan nema sjálfa sig til að reiða sig á svo vikum skiptir.

Kylfingum í þeirri stöðu hættir til að breyta um stefnu ef þeim fer að ganga illa, en Haraldur hefur haldið sig við það sem hann kann og unnið jafnt og þétt að því að bæta sig á öllum sviðum. Ég er viss um að hann hefur það sterka hugarfar og hæfilega skammt af eigingirni sem þarf til að ná langt sem atvinnumaður í golfi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert