Þessir eru öruggir í lið Bandaríkjanna

Brooks Koepka hafnaði í efsta sæti Ryder-listans hjá Bandaríkjamönnum eftir …
Brooks Koepka hafnaði í efsta sæti Ryder-listans hjá Bandaríkjamönnum eftir að hafa unnið tvo af fjórum risamótum ársins. AFP

Að loknu Dell-mótinu í FedEx-úrslitakeppni PGA-mótaraðarinnar sem lauk í gærkvöld er ljóst hvaða átta kylfingar unnu sér inn rétt til að leika fyrir Bandaríkin gegn Evrópu í Ryder-bikarnum. 

Þeir átta sem um ræðir eru: Brooks Koepka, Dustin Johnson, Justin Thomas, Patrick Reed, Bubba Watson, Jordan Spieth, Rickie Fowler og Webb Simpson. Er Justin Thomas eini nýliðinn og býsna sterkur nýliði í ljósi þess að hann náði um tíma í fyrra efsta sæti heimslistans og er í þriðja sæti listans nú. 

Jim Furyk, liðsstjóri bandaríska liðsins, á eftir að velja fjóra leikmenn sem honum hugnast að nota rétt eins og Thomas Björn hjá Evrópu. Þeir munu greina frá vali sínu á næstu dögum en keppnin fer fram í Frakklandi í lok mánaðarins. 

Kunnir kappar voru nokkuð nærri því að spila sig inn í liðið eins og Tiger Woods og Phil Mickelson. Þeir koma væntanlega sterklega til greina hjá Furyk en fleiri snjallir kylfingar gera tilkall eins og Bryson De Chambeau sem verður nánast örugglega valinn eftir að hafa nú unnið tvö mót í röð. Þá hefur Tony Finau verið öflugur undanfarið en hann vakti mikla athygli á Masters í apríl þegar hann lék vel eftir að hafa misstigið sig illa fyrir framan sjónvarpsvélarnar daginn fyrir mót. 

Fari svo að Tiger Woods verði valinn þá mun hann fara út úr liðsstjórateyminu en hann var skipaður einn af aðstoðarmönnum Furyks. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert