Nýr fyrirliði kynntur í dag

Padraig Harrington verður að öllum líkindum kynntur sem nýr fyrirliði …
Padraig Harrington verður að öllum líkindum kynntur sem nýr fyrirliði Ryder-liðs Evrópu. AFP

Tíðinda er að vænta úr golfheiminum í dag en boðað hefur verið til blaðamannafundar í Wentworth, höfuðstöðvum Evrópumótaraðarinnar. Líklegt þykir að nýr fyrirliði Ryder-liðs Evrópu verði kynntur.

Sögur herma að írski kylfingurinn Padraig Harrington muni taka við fyrirliðastöðunni og taka við af Thomasi Björn, sem leiddi Evrópuliðið til sigurs gegn því bandaríska í Ryder-bikarnum nú í haust. Harrington verður þar með þriðji Írinn til þess að taka við fyrirliðastöðunni.

Harrington, sem er 47 ára gamall og hefur unnið þrjú risamót á ferlinum, hefur verið varafyrirliði í síðustu þremur keppnum en Ryder-bikarinn fer fram annað hvert ár. Hann hafði áður tekið sex sinnum þátt í keppninni sem leikmaður og var þá í sigurliði Evrópu í fjögur skipti.

Talið var að valið stæði á milli Harrington og Lee Westwood um fyrirliðastöðuna en eftir að hinn síðarnefndi gaf út að hann vildi frekar taka við stöðunni fyrir keppnina árið 2022 virðist Harrington eiga útnefninguna vísa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert