Besti hringur Valdísar þrátt fyrir helaumt bak

Valdís Þóra Jónsdóttir á mótinu í Ástralíu í gær, eða …
Valdís Þóra Jónsdóttir á mótinu í Ástralíu í gær, eða í nótt að íslenskum tíma. Ljósmynd/LET

Mögnuð frammistaða Valdísar Þóru Jónsdóttur, atvinnukylfings úr Leyni, er enn athyglisverðari í ljósi þess að hún getur ekki beitt sér að fullu þessa dagana vegna bakeymsla.

Valdís lék sinn besta hring á ferlinum sem atvinnukylfingur þegar hún lék á 63 höggum í Ástralíu í nótt, 8 höggum undir pari, á NSW Open. Mótið er hluti af Evrópumótaröðinni en tilheyrir einnig áströlsku LPGA-mótaröðinni. Valdís segir mótið vera sitt síðasta í bili því hún ætli heim til Akraness og vonist til að fá bót bakmeina sinna:

„Ég er búin að finna mjög mikið til í bakinu síðustu fimm vikur, svo ég ákvað að í þessari viku myndi ég hægja mjög á sveiflunni í höggunum mínum. Ég hélt boltanum alltaf í leik og átti mörg góð högg með járni inn á flatirnar, og einnig mörg góð pútt,“ segir Valdís við heimasíðu LET.

„Í ljósi þess hvað bakið hefur angrað mig mikið þá ætla ég að taka því rólega áfram og spila með opnum huga,“ segir Valdís sem fer aftur af stað seint í kvöld að íslenskum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert