Sex slasaðir eftir að eldingum laust niður

Justin Thomas
Justin Thomas AFP

Eldingar settu ekki einungis mótshald Tour Championship, lokamóti PGA-mótaraðarinnar í golfi, úr skorðun í Atlanta í gær heldur eru sex slasaðir. 

Mótið er með þeim stærstu á hverju ári og að því loknu kemur í ljós hver hlýtur mesta verðlaunafé í íþróttunum, um það bil 2 milljarða íslenskra króna, fyrir að verða stigameistari á mótaröðinni. Mótið fer nú fram á East Lake í Atlanta. 

Í gær hafði síðasta ráshópurinn lokið við 5. holuna á þriðja hring af fjórum þegar leik var frestað vegna hættu á eldingum. Í síðasta ráshópi eru Brooks Koepka og Justin Thomas. Hættan reyndist raunveruleg og tæplega hálftíma síðar laust eldingum niður á tveimur stöðum á mótssvæðinu. Sex áhorfendur eru slasaðir og voru fimm þeirra fluttir með sjúkrabílum á sjúkrahús. Ekki hefur komið fram í fjölmiðlum hversu alvarleg meiðsli þeirra eru. 

Mótinu verður framhaldið í dag en Thomas er með eitt högg í forskot á Koepka og Rory McIlroy. 

mbl.is