Tvöfaldur meistari verður ekki með

Brooks Koepka þarf að sætta sig við að vera áhorfandi …
Brooks Koepka þarf að sætta sig við að vera áhorfandi á Opna bandaríska meistaramótinu. AFP

Bandaríkjamaðurinn Brooks Koepka getur ekki tekið þátt í Opna bandaríska meistaramótinu í golfi sem hefst eftir viku á Winged Foot vellinum í New York. 

Koepka sigraði á mótinu tvö ár í röð 2017 og 2018 en glímir nú við meiðsli í mjöðm. Hann lék síðast á Wyndham mótinu í ágúst. Koepka greindi frá ákvörðun sinni á Twitter en segist vonast til að ná fullri heilsu fljótlega. 

Koepka vann PGA meistaramótið 2018 og 2019 og hefur því fjórum sinnum fagnað sigri á risamótum. Eftir þessa velgengni var hann í efsta sæti heimlistans í upphafi þess árs en meiðsli í mjöðm og hné hafa gert honum erfitt fyrir á þessu ári. Er hann nú í áttunda sæti listans. 

Þótt Koepka missi nú af Opna bandaríska getur hann leyft sér að vona að ná einu risamóti í viðbót á árinu því Masters var frestað í apríl og fer fram í nóvember. 

mbl.is