Lýkur biðinni í kvöld?

Jordan Spieth slær upp úr sandgryfju á Pebble Beach í …
Jordan Spieth slær upp úr sandgryfju á Pebble Beach í gærkvöld. AFP

Bandaríski kylfingurinn Jordan Spieth er með forystu fyrir lokadaginn á AT&T-mótinu í PGA-mótaröðinni sem fram fer á Pebble Beach í Kaliforníu. 

Spieth er samtals á 13 höggum undir pari eftir 54 holur og hefur tveggja högga forskot á nokkra kylfinga. Nate Lashley, Tom Hoge, Russell Knox, Patrick Cantlay og Daniel Berger koma næstir og nokkrir til viðbótar á 10 undir pari. 

Spieth hefur ekki unnið mót síðan hann sigraði á The Open árið 2017 en hann sló ungur í gegn og naut mikillar velgengni um tíma. Vann hann Masters og Opna bandaríska meistaramótið árið 2015 og hefur því unnið þrjú af risamótunum fjórum. 

Spieth hefur unnið ellefu mót í PGA-mótaröðinn og þrjú á Evrópumótaröðinni og er þó einungis 27 ára gamall. 

Síðustu ár hafa hins vegar reynst honum heldur erfið á golfvellinum og honum gekk illa í fyrra. Spieth hefur leikið nokkuð vel í upphafi árs og svo virðist sem biðinni sé að ljúka en honum veitir ekki af sigri til að eiga möguleika á að komast í Ryder-lið Bandaríkjanna en keppt verður um Ryder-bikarinn í haust. 

mbl.is