Daníel Freyr á leið í FH

Daníel Freyr Andrésson kemur til liðs við FH í sumar ...
Daníel Freyr Andrésson kemur til liðs við FH í sumar og stendur í marki liðsins. Morgunblaðið/Eva Björk

Handknattleiksmarkvörðurinn Daníel Freyr Andrésson hefur ákveðið að flytja heim um mitt þetta ár og ganga þá til liðs við uppeldisfélag sitt FH. Hann hefur skrifað undir samning við FH þess efnis að leika með liði félagsins fram til ársins 2018.

Daníel Freyr er nú á öðru keppnistímabili með danska úrvalsdeildarliðinu SönderjyksE á suðurhluta Jótlands. 

„Þegar við fréttum að Danni hefði áhuga á að koma heim þá var ekkert annað að gera en að breiða út faðminn. Danni er að okkar mati einn af bestu markvörðum Íslands, frábær karakter og drengur góður. Danni mun jafnframt koma til með að hjálpa og kenna yngri markvörðum FH en hann mun koma inní þjálfarateymi yngri flokka FH og sinna markvörðum okkar sérstaklega," er haft eftir Ásgeiri Jónssyni, formanni handknattleiksdeildar FH í tilkynningu frá deildinni.

Daníel Freyr er 26 ára gamall. Hann er í 28 manna landsliðshópi íslenska landsliðsins fyrir Evrópumeistaramótinu sem hefst í Póllandi 15. janúar.  Hann á að baki 2 A-landsleiki. 

Daníel Freyr. t.h. og Sigurður Örn Þorleifsson varaformaður handknattleiksdeildar FH ...
Daníel Freyr. t.h. og Sigurður Örn Þorleifsson varaformaður handknattleiksdeildar FH takast í hendur. Ljósmynd/FH
mbl.is