Það verður erfitt fyrir hjartað

Ramune ásamt Dagnýju Huld Birgisdóttur og Þórey Önnu Ásgeirsdóttur sem ...
Ramune ásamt Dagnýju Huld Birgisdóttur og Þórey Önnu Ásgeirsdóttur sem áður höfðu gengið í raðir Stjörnunnar í sumar. Facebook-síða Stjörnunnar

„Ég er rosalega ánægð með að Stjarnan bauð mér samning, ég er ekki ung lengur og ég er ánægð að Stjarnan leitaði til mín af fyrra bragði. Markmiðið er að vinna alla titla og mér líst vel á það. Liðið er búið að bæta við sig spennandi leikmönnum," sagði Ramune Pekarskyte, ein besta handknattleikskona Íslands á undanförnum árum Hún gekk í raðir Stjörnunnar frá Haukum í dag. 

Hún segir það ekki hafa verið erfiða ákvörðun að skipta um félag, en hún viðurkenni þó að það geti orðið erfitt að spila á móti Haukum. 

„Ég var í Haukum í sjö ár og ég hef spilað í Noregi, Danmörku og Frakklandi, svo ég er vön því að skipta um félag."

„Það verður erfitt fyrir hjartað, en ég læt það ekki hafa áhrif því ég mun gefa allt fyrir félagið sem ég er hjá."

Ramune er spennt fyrir komandi tímabili. 

„Ég er ekki alveg í toppstandi núna, en ég mun æfa stíft fram að móti og í september verð ég í toppformi og ég er spennt að komast af stað."

mbl.is