Kiel fékk skell án Alfreðs - Janus með tvö í sigri

Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel.
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel. Ljósmynd/Jonas Guettler

Pólska liðið Kielce fór illa með lærisveina Alfreðs Gíslasonar hjá Kiel í B-riðli Meistaradeildar Evrópu í dag en liðsmenn Kiel voru án Alfreðs í Póllandi. Lokatölur urðu 32:21 stórsigur Kielce.

Alfreð gekkst undir aðgerð á baki á dögunum og fór ekki með liðinu til Póllands og virðist hafa munað um minna.

Pólverjinn Karol Bielecky skoraði átta mörk fyrir Kielce og var markahæstur. Rune Dahmke var markahæstur hjá Kiel sem er án stiga eftir tvo leiki.

Í sama riðli í dag skoraði Janus Daði Smárason tvö mörk fyrir Álaborg sem vann góðan heimasigur á Celje Lasko, 32:30, fyrr í dag í sama riðli.

Lærisveinar Arons Kristjánssonar í Álaborg hafa tvö stig eftir tvo leiki. Arnór Atlason komst ekki á blað.

Janus Daði Smárason.
Janus Daði Smárason. mbl.is/Golli
mbl.is