Við ætluðum okkur stærri hluti

Snorri Steinn Guðjónsson ræðir við sína menn í kvöld.
Snorri Steinn Guðjónsson ræðir við sína menn í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það var hitt og þetta sem gerðist. Við vorum lélegir í dag og sérstaklega í sókninni og þannig var það í þessari rimmu,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, spilandi þjálfari Vals, í samtali við mbl.is eftir 29:19-tap gegn Haukum í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í handbolta í kvöld. Haukar vinna einvígið 2:0 og eru Íslandsmeistararnir því úr leik. 

Björgvin Páll Gústavsson varði 19 skot í leiknum, þrátt fyrir að spila ekki allan tímann. Hann var magnaður í upphafi leiks. 

„Auðvitað er Bjöggi stórkostlegur og dregur virkilega úr okkur tennurnar. Við vorum að koma okkur í fín færi framan af en svo misstum við móðinn og hausinn og eitt leiddi að öðru. Við töpuðum fyrir miklu betra í liði. Ég er sáttastur við sóknarleikinn fyrsta kortérið, þá vorum við að skapa okkur færi en Bjöggi var of stór biti í dag. Í heildina er þetta mjög verðskuldað hjá Haukum.“

Snorri segir Val ekki eiga að tapa svona leikjum með tíu mörkum. 

„Tölurnar tala sínu máli. Við förum ekki í felur með það þótt ég gæti haldið öðru fram við þig. Auðvitað eigum við ekki að tapa svona leik með tíu mörkum en við gerðum það samt sem áður.“

Hann segir tímabilið í heild sinni vonbrigði. 

„Þetta eru mikil vonbrigði. Við ætluðum okkur stærri hluti, það er ekki spurning. Auðvitað voru einhvers staðar blikur á lofti um að við værum á réttri leið en í þessum stóru leikjum vorum við ekki nægilega góðir,“ sagði Snorri Steinn. 

mbl.is