Lárus Helgi yfirgefur Aftureldingu

Lárus Helgi Ólafsson stendur ekki í marki Aftureldingar á næsta ...
Lárus Helgi Ólafsson stendur ekki í marki Aftureldingar á næsta keppnistímabili í handboltanum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Markvörðurinn Lárus Helgi Ólafsson leikur ekki með handknattleiksliði Aftureldingar á næstu leiktíð en hann kom til liðsins fyrir ári.

Haukur Sörli Sigurvinsson, formaður meistaraflokksráðs Aftureldingar, staðfesti í samtali við mbl.is að endurskoðunarákvæði hefði verið í samningi Lárusar Helga við Aftureldingu þess efnis að hægt væri að segja samningnum upp að ári liðnu. „Það varð að samkomulagi að rifta samningnum,“ sagði Haukur Sörli. Hvort riftunin væri að frumkvæði Lárusar eða Aftureldingar fékkst ekki upplýst.

Lárus Helgi sagði við mbl.is að hann ætlaði að gefa sér tíma til þess að njóta sumarsins með fjölskyldunni áður en næsta skref verður tekið. „ Ég mun skoða þessi mál vel á næstu vikum, vonandi kemur eitthvað spennandi upp,“ sagði Lárus Helgi sem taldi líklegra en ekki að hann haldi áfram að stunda handknattleik.

Þar með hafa báðir markverðir Aftureldingarliðsins á síðasta keppnistímabili yfirgefið liðið. Kolbeinn Aron Ingibjargarson gekk á dögunum til liðs við uppeldisfélag sitt ÍBV. Aftureldingarliðið stendur þó ekki uppi markvarðarlaust því nýverið var samið við Arnór Frey Stefánsson sem leikið hefur með Randers í Danmörku síðustu tvö ár.

mbl.is