Þungu fargi létt af Guðmundi

Guðmundur Þórður Guðmundsson er óþreytandi að leiðbeina leikmönnum meðan leikir ...
Guðmundur Þórður Guðmundsson er óþreytandi að leiðbeina leikmönnum meðan leikir standa yfir. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það má segja það að þungu fargi sé af mér létt því ég hef lengi beðið eftir þessum leik,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, eftir að íslenska landsliðið tryggði sér í kvöld sæti á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Þýskalandi og Danmörku í janúar. Þriggja marka sigur á Litháen, 34:31, innsiglaði keppnisréttinn.

„Ég gerði mér fyrstur manna grein fyrir ásamt Gunnari Magnússyni og Tomasi Svensson, aðstoðarmönnum mínum, að andstæðingurinn væri stórhættulegur eins og raun var á. Leikmenn sáu þetta einnig þegar undirbúningurinn hófst. Þeim verð ég að hrósa fyrir mikla fagmennsku og hvernig þeir nálguðust leikina tvo við Litháa því okkur varð ljóst að það yrði ekki einfalt að brjóta lið Litháa á bak aftur,“ sagði Guðmundur Þórður og bætti við. „Litháen hefur á að skipa mjög flottu liði sem er alls ekki auð unnið.“

Sérstaklega var sóknarleikurinn góður

Guðmundur segir að lykilatriðið við að tryggja sér farseðilinn á HM hafi verið að ná „frekar hagstæðum“ úrslitum í Vilníus á föstudaginn síðasta en þá skildu liðin jöfn, 27:27.  „Í kvöld þá gerðum við okkur erfitt fyrir með því að hafa ekki náð fimm marka forskoti áður en flautað var til hálfleiks í stað þess að vera aðeins tveimur mörkum yfir. Þar af leiðandi var síðari hálfleikur erfiður en liðið mitt barðist gríðarlega vel, sérstaklega var sóknarleikurinn mjög góður. Okkur tókst að leysa varnarleik  þeirra mjög vel og leika okkur í marktækifæri í nánast hverri sókn,“ sagði Guðmundur.

Fékk Guðmundur vitrun?

Íslenska landsliðið varð fyrir áfalli um miðjan fyrri hálfleik þegar Arnóri Þór Gunnarssyni var vísað af leikvelli með rautt spjald eftir að boltinn fór í ennið á markverði Litháa þegar Arnór tók vítakast. „Þá kom sér vel að hafa kallað Theodór Sigurbjörnsson inn í liðið fyrir þennan leik.  Það liggur við að ég hafi fengið vitrun þegar ég ákvað að velja hann fyrir þennan leik. Eftir á að hyggja kom það sér mjög vel að hafa hann til að leysa Arnór Þór af því annars hefði ég ekki haft hornamanni í stöðuna.“

Stórkostlegur stuðningur

Guðmundur Þórður átti vart orð til þess að lýsa þeim mikla stuðningi sem landsliðið fékk í leiknum en nærri 2.500 áhorfendur troðfylltu Laugardalshöllina að þessu sinni. Uppselt var á leikinn um miðjan dag.  „Ég minnist þess ekki að hafa fengið jafngóða stuðning í leik hér heima um árabil og það frá fyrstu mínútu. Stemningin var frábær. Allir áhorfendur stóðu síðustu fimm til sex mínútur leiksins. Spennan var slík. Stuðningurinn var hrikalega mikilvægur og fyrir hann er ég afar þakklátur,“ sagði Guðmundur Þórður sem stýrði landsliðinu í fyrsta sinn á heimavelli eftir að hann tók við þjálfun landsliðsins á nýjan leik í febrúar.

Gefur möguleika í uppbyggingunni

Að tryggja sér keppnisrétt á heimsmeistaramótinu á næsta ári er mikilvægur þátt í áframhaldandi uppbyggingu landsliðsins að mati Guðmundar.  „Það gefur okkur ákveðið svigrúm í uppbyggingarfasanum að komast inn á HM. Hinsvegar hefur ekkert breyst varðandi þá staðreynd að það mun taka þrjú ár að koma íslenska landsliðinu í allra fremstu röð á nýjan leik. En það gefur okkur gríðarlega mikið að komast inn á HM. Í haust hefst undankeppni EM. Þá verða á dagskrá leikir sem við verðum að vinna. En að komast inn á HM léttir okkur uppbygginguna, gefur okkur ákveðna möguleika,“ sagði Guðmundur sem vildi hrósa öllu liði sínu fyrir vinnuna.

Vignir Svavarsson í slag við Aidenas Malasinskas, markahæsta leikmann Litháa ...
Vignir Svavarsson í slag við Aidenas Malasinskas, markahæsta leikmann Litháa í leiknum í kvöld. Guðmundur landsliðsþjálfari hrósar mjög Vigni og framlagi hans til landsliðsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Einnig vil ég þakka Vigni Svavarssyni alveg sérstaklega fyrir að gefa kost á sér í síðustu verkefni með okkur og miðla þar með af sinni yfirgripsmiklu og viðtæki reynslu sem hann hefur yfir að ráða. Framlag Vignis til liðsins er ómetanlegt,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari sem mun stýra íslenska landsliðinu í þriðja sinn á heimsmeistaramóti í janúar nk.

mbl.is