Ég er hundsvekktur yfir þessu

Lárus Helgi Ólafsson í marki Aftureldingar, þar sem hann spilaði …
Lárus Helgi Ólafsson í marki Aftureldingar, þar sem hann spilaði á síðustu leiktíð. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er hundsvekktur yfir þessu. Þetta var algjörlega okkar leikur síðustu tíu mínúturnar og það hefði verið rosalega sætt að klára þetta á heimavelli,“ sagði Lárus Helgi Ólafsson, markmaður Fram, sem spilaði sinn fyrsta leik með liðinu í 25:25-jafntefli við Val á heimavelli í kvöld. 

Valsmenn voru með yfirhöndina stóran hluta leiks, en Framarar neituðu að gefast upp og komust yfir undir lokin.

„Vörnin small og þá gengur allt miklu betur og aðgerðirnar verða léttari í sókninni. Það hefur vantað að minnka sveiflurnar í leiknum hjá okkur og við erum að vinna í því. Við viljum spila heilsteypt og ekki falla of langt niður á milli.“

Hann segir litla pressu hafa verið á Fram í leiknum enda flestir sem spáðu Val sigri. 

„Það spáðu allir Valsmönnum sigri og við fórum þannig í þennan leik. Öll pressan var á þeim og engin pressa á okkur. Við vorum „underdogs“ og okkur líður vel þannig.“

Hann hlakkar til að spila með Viktori Gísla Hallgrímssyni, efnilegasta markmanni landsins. 

„Það er frábært að spila með Viktori. Við myndum þokkalega sterkt par, ég hlakka til vetrarins með honum,“ sagði Lárus Helgi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert