„Sá að þetta myndi ráðast á lokasekúndunum“

Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyrar.
Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyrar. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Sverre Andreas Jakobsson, þjálfari Akureyringa í Olís-deild karla í handbolta, mátti vera hundsvekktur með sjö marka tap gegn ÍBV í dag. Lið hans var að spila vel lengstum en á lokamínútunum gekk allt á afturfótunum hjá Akureyri og ÍBV breytti stöðunni úr 23:22 í 29:22.

Sæll Sverre. Hvað segir maður eftir svona leik þar sem allt fer úrskeiðis í lokin? Þetta eru fáránleg úrslit miðað við hversu jafn leikurinn var.

„Já, satt er það. Ég var mjög sáttur við fyrstu 51 mínútuna hjá okkur. Það var margt gott hjá okkur og við að spila fínan handbolta. Það var hnífjafnt og hörkuleikur í gangi. Ég sá fram á að þetta myndi ráðast á lokasekúndunum. Svo hrundi þetta eiginlega hjá okkur. Markvarslan dettur þeirra megin og þeir eru skynsamari í lokin á meðan við erum kannski full bráðir. Það vantaði líklega meiri skynsemi hjá okkur í síðustu sóknunum. Við endum þetta svo með mínus sjö. Það er helvíti fúlt.“

Þrátt fyrir að markvarslan hjá ykkur hafi ekki verið góð þá voruð þið inni í leiknum.

„Við hefðum þurft betri markvörslu. Það sér það hver heilvita maður að sex varin skot eru ekki vænleg til árangurs. Hins vegar var varnarleikurinn fínn á löngum köflum og við vorum skynsamir og þolinmóðir í sóknarleiknum. Það hélt okkur í jöfnum leik. Þetta þarf samt allt að virka saman og þetta er ein keðja. Ég veit alveg að markmennirnir munu rífa sig upp fyrir næsta leik. Aðalatriðið er samt að ég hefði viljað að við héldum betur út.“

Þú getur samt sem áður verið ánægður með margt í þessum leik.

„Já ekki spurning. Það var margt gott í þessu en við eigum mikið verkefni fram undan og þurfum að halda áfram. Við sjáum hvað við þurfum að bæta og ætlum að gera það. Það eru tvær vikur í næsta leik. Mér fannst gaman að sjá Garðar Má og Patrek koma öfluga inn í leikinn. Við vorum að hreyfa liðið mikið og það voru margir sem stóðu sig vel,“ sagði Sverre í lokin.

mbl.is