Þórir skildi Herrem eftir úti í kuldanum

Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta.
Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta. AFP

Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handknattleik, valdi í dag leikmannahóp sinn sem leikur á Evrópumótinu í Frakklandi í næsta mánuði.

Stóru tíðindin í vali Þóris urðu þau að hann ákvað að velja ekki Camillu Herrem sem hefur spilað á 12 stórmótum í röð.

Valið um vinstri hornastöðuna stóð á milli Herrem og Thea Mørk og varð sú síðarnefnda fyrir valinu hjá Þóri.

„Það er aldrei gaman þegar þú nærð ekki markmiðum þínum en svona er þetta stundum. Ég kem bara sterkari til baka,“ skrifaði Herrem á Instagram-síðu sína en hún hefur verið einn af lykilmönnum í sigursælu liði Noregs mörg undanfarin ár undir stjórn Þóris. Hún eignaðist barn fyrir fjórum mánuðum.

„Fólk segir oft við mig að það sé létt að velja liðið sem ég hef gert svo oft. Það segir að það sé auðveldara í hvert skipti en það er alls ekki svo. Herrem hefur lagt hart að sér og hefur gert allt rétt og náð langt fjórum mánuðum eftir fæðinguna. Hún verður varamaður á mótinu,“ sagði Þórir þegar hann tilkynnti leikmannahóp sinn.

Norðmenn eiga titil að verja og leika í riðli með Rúmenum, Þjóðverjum og Tékkum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert