„Aukaaugu“ þarf á alla leiki

Afturelding og FH skildu jöfn í hörkuleik.
Afturelding og FH skildu jöfn í hörkuleik. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sjöunda umferð Olísdeildar karla var umferð jafnteflanna en jafnframt nokkuð óvæntra úrslita. Fjórum viðureignum af sex lauk með jafntefli sem m.a. hefur orðið til þess að umræða hefur vaknað um hvort rétt væri að leggja niður jafntefli á Íslandsmótinu í handknattleik og láta leika til þrautar.

Slíkt var reynt á einni leiktíð fyrir um hálfum öðrum áratug. Reynslan var svo góð að ákveðið var að halda því ekki áfram veturinn á eftir. Síðan hafa menn sætt sig við jafntefli í handboltaleikjum Íslandsmótsins. Vonandi verður svo áfram enda er hugmyndin slæm, að mínu mati. Reyndar nærri jafn slæm og hugmynd kaupmanns eins fyrr á tíð um að leggja ætti niður núllið vegna þess að það ruglaði bókhaldið hjá honum. Gildir einu hvort menn vilja taka upp vítakeppni að loknum hefðbundnum leiktíma, framlengja leik í 2x5 mínútur og fara þá í vítakeppni verði enn jafnt eða taka upp svokallaða gullmarksreglu.

Eftir því sem næst verður komist eru uppi hugmyndir um að dómarar Íslandsmótsins geti brugðið á það ráð að líta á upptökur frá leikjum sem þeir eru að dæma. Semsagt séu þeir í vafa geti þeir stöðvað leikinn og skoðað leikbrotið á sjónvarpsskjá sem staðsettur er á hliðarlínunni. Tækni þessi er fyrir hendi á kappleikjum víða í Evrópu og m.a. verið í notkun á stórmótum landsliða og félagsliða í einhverjum mæli. Til dæmis gátu dómarar gripið til þessarar tækni á Evrópumótinu sem fram fór í byrjun ársins.

Eitt og annað fer framhjá

Það er enginn hægðarleikur að dæma handboltaleiki í efstu deild. Hraðinn er mikill og dómarar verða að hafa vökul augu á mörgu því sem fram fer á vellinum. Eins og sést vel þegar fylgst er með leikjum í sjónvarpi fer eitt og annað framhjá dómurnum og ekki síður árvökulum augum eftirlitsmanna sem mörgum þykir hafa á stundum betri heyrn en sjón. Eitt nýjasta dæmið er hvernig eftirlitsmaður og starfsmenn ritaraborðs sofnuðu á verðinum í leik Aftureldingar og FH á Varmá á sunnudagskvöldið þegar Aftureldingarliðið var mínútum saman með of marga leikmenn á vellinum án þess að nokkur tæki eftir. Ég er ekki sá eini sem tók ekki eftir þessu fyrr Tómas Þór Þórðarsson, umsjónarmaður Seinni bylgjunnar á Stöð2sport benti á það á mánudaginn í þætti sínum.

Jákvætt er ef þeir sem eiga að fylgjast með að leikir fari fram samkvæmt reglum eigi þess kost að fjölga „augum sínum“ á leiknum og nýta tækni sem fyrir hendi er til þess að létta sér róðurinn. Á það ekki síst við um gróf brot, vafaatriði; hvort boltinn hafi verið innan eða utan marklínu eða þá hvort markvörður hafi verið búinn að hreyfa sig eða ekki þegar bolta er kastað í höfuð hans í vítakasti.

Sjá alla greinina og lið 7. umferðar í Olís-deild karla í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert