Verðskuldar þetta brottvísun? (myndskeið)

mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Joachim Christensen, markvörður handboltaliðs Runar í Noregi, var rekinn í bað í leik gegn Bodö á dögunum. Nettavisen hefur birt myndskeið af atvikinu og lesendur geta sjálfir myndað sér skoðun á því hvort um réttan dóm hafi verið að ræða. 

Christensen kom út á móti línumanni Bodö sem var í dauðafæri á línunni og skoraði. Christensen hafði uppi hefðbundna markmannstilburði og gerði sig breiðan með því að setja hendur og fætur út. Nokkuð sem sést oft hjá markvörðum í handboltanum. 

Svo illa vildi til að Christensen sparkaði um leið í andlit línumannsins sem fékk talsvert högg á höfuðið en virtist jafna sig. 

Christensen mun hafa gert þetta þrisvar á keppnistímabilinu og hefur það væntanlega ekki hjálpað honum gagnvart dómurum leiksins sem hafa væntanlega litið þannig á að með þessu væri hann að stofna heilsu andstæðings í hættu. 

Hér má sjá myndskeið af atvikinu

mbl.is