Orðlaus eftir frammistöðuna

Lovísa Thompson var besti leikmaður Vals í kvöld og skoraði …
Lovísa Thompson var besti leikmaður Vals í kvöld og skoraði sex mörk. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er mjög svekkt með þennan leik. Það kemur upp eitthvað andleysi hjá okkur undir restina og það fer með leikinn,“ sagði Lovísa Thompson, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir 27:22-tap liðsins gegn Fram í 9. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik á Hlíðarenda í kvöld.

„Við hættum að þora að skjóta á markið undir restina og það kemur eitthvað panikk í okkur. Þetta er gríðarlega ólíkt okkur og ég er í raun orðlaus eftir þessa frammistöðu. Þetta gerðist líka síðast þegar að við spiluðum við Fram. Það hefur verið mjög góður stígandi í þessu hjá okkur á þessu tímabili á meðan þær hafa verið að ganga í gegnum ákveðna erfiðleika. Þú þarft að mæta tilbúin til leiks í alla leiki og þú kemst ekki upp með svona frammistöðu í svona stórum leik.“

Lovísa undirstrikar að liðið ætli sér stóra hluti á komandi tímabili og viðurkennir að svona hrun, eins og átti sér stað í kvöld, sé ekki í boði þegar komið er inn í úrslitakeppnina.

„Við eigum leik á næsta laugardag og við munum mæta trítilóðar í þann leik. Þetta er síðasti leikurinn okkar fyrir jól og við viljum gera vel þar. Við ætlum okkur í úrslitakeppnina og alla leið og þá þýðir ekki að mæta svona til leiks. Við erum á réttri leið sem lið en þetta er nýtt lið hjá okkur í ár og það koma alltaf brekkur inn á milli en núna þurfum við að vera sterkar andlega og halda áfram,“ sagði Lovísa Thompson í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert