Erfitt verkefni fram undan á Selfossi

Einar Sverrisson skoraði átta mörk í Póllandi í dag.
Einar Sverrisson skoraði átta mörk í Póllandi í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stórleikur Selfyssingsins Einars Sverrissonar dugði ekki til þegar liðið mætti Azoty-Pulawy frá Póllandi í 3. umferð EHF-bikars karla í handknattleik í dag en leiknum lauk með sjö marka sigri pólska liðsins, 33:26. 

Selfyssingar byrjuðu leikinn afar illa og náðu leikmenn Azoty-Pulawy fimm marka forskoti þegar sjö mínútur voru liðnar af leiknum. Selfyssingar gerðu áhlaup og tókst að minnka muninn í þrjú mörk þegar fimmtán mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Liðin skiptust á að skora og tókst Selfyssingum að minnka muninn niður í eitt mark á 27. mínútu en heimamenn í Azoty-Pulawy skoruðu síðasta mark hálfleiksins og var staðan 16:14 í hálfleik.

Azoty-Pulawy byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og var munurinn á liðunum orðinn sjö mörk á 36. mínútu. Selfyssingar skoruðu ekki mark á fyrstu sjö mínútum síðari hálfleiks og lagði það grunninn að góðum sigri Azoty-Pulawy. Heimamenn í Azoty-Pulawy náðu mest níu marka forskoti í seinni hálfleik en Selfyssingum tókst að laga stöðuna undir lokin og lokatölur í Póllandi 33:26.

Einar Sverrisson var markahæstur í liði Selfyssinga með átta mörk, Atli Ævar Ingólfsson skoraði fimm mörk. Árni Steinn Steinþórsson skoraði fjögur mörk fyrir Selfoss og þeir Elvar Örn Jónsson og Haukur Þrastarson þrjú mörk hvor. Síðari leikur liðanna fer fram á Selfossi á næsta laugardag, 24. nóvember, klukkan 18 að íslenskum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert