Algjörlega komnir í toppbaráttu

Barningur. Birkir Benediktsson var sterkur í kvöld og skoraði níu …
Barningur. Birkir Benediktsson var sterkur í kvöld og skoraði níu mörk. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Baráttan og liðsheildin var góð hjá okkur. Það mættu allir klárir í þennan leik,“ sagði Birkir Benediktsson, skytta hjá Aftureldingu, eftir sterkan 33:27-sigur á heimavelli gegn Stjörnunni í Olísdeildinni í handbolta í kvöld. 

„Við spiluðum ótrúlega góða vörn og vorum að mæta skyttunum þeirra vel. Við vorum klókir í sókninni og völdum færin vel og skutum vel.“

Afturelding náði fínu forskoti snemma í síðari hálfleik en Stjarnan minnkaði muninn í tvö mörk, skömmu fyrir leikslok. Að lokum voru Mosfellingar hins vegar sterkari. 

„Mér leið alltaf vel og ég vissi að við myndum klára þetta. Við vissum að þetta yrði hörkuleikir. Þeir eru búnir að vera á siglingu. Við skipulögðum okkur hins vegar vel og komum klárir í þetta.“

Afturelding fór upp að hlið FH í fjórða sæti deildarinnar og í augnablikinu er liðið aðeins einu stigi frá toppliðunum þremur. Birkir segir Aftureldingarmenn vera komna í toppbaráttuna til að vera. „Já algjörlega,“ sagði Birkir Benediktsson ákveðinn að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert