Sóknarleikurinn mun koma

Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals.
Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals. mbl.is//Hari

„Við spiluðum frábæran varnarleik í sextíu mínútur og stóðum vel, þar sem mér fannst við vera í vörn meirihluta leiksins, þar sem þær fengu að spila mjög langar sóknir,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, í samtali við mbl.is eftir 19:16-sigur sinna kvenna gegn Stjörnunni í 13. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik á Hlíðarenda í kvöld.

„Við gerðum mörg tæknileg mistök í dag, sérstaklega í hraðaupphlaupunum og við vorum í ákveðnum erfiðleikum fannst mér. Stjarnan er með gott lið og marga reynda og góða leikmenn. Við vissum að þetta yrði erfiður leikur og sú varð raunin. Það er alltaf sterkt að vinna þótt maður sé kannski ekki að spila sinn besta leik en við undirbjuggum okkur vel fyrir leikinn og mættum tilbúnar til leiks. Við þurfum að vinna betur í sóknarleiknum, það er alveg á hreinu, en hann mun koma.“

Ágúst Þór er ánægður með að vera í efsta sæti deildarinnar en ítrekar að liðið geti gert betur.

„Ég er ánægður með að vera í efsta sæti deildarinnar en við getum gert mun betur og spilamennskan í dag var ekki nægilega góð. Að sama skapi náum við í tvö stig og það er það mikilvægasta í þessu öllu saman,“ sagði Ágúst Þór í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert