Markmiðið að halda sér í deildinni

Jónatan Magnússon, þjálfari KA/Þórs.
Jónatan Magnússon, þjálfari KA/Þórs. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

„Ég er svekktur að hafa ekki náð að gefa þeim meiri leik í seinni hálfleik,“ sagði Jónatan Þór Magnússon, þjálfari KA/Þórs, í samtali við mbl.is eftir 31:24-tap liðsins gegn Fram í 14. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í Safamýrinni í kvöld.

„Við vorum mikið að elta þær í leiknum en samt sem áður sýndum við frábæran karakter í fyrri hálfleik að koma til baka eftir að hafa verið fimm mörkum undir. Við náum svo aftur að koma til baka í seinni hálfleik og minnka muninn í 22:20 og ég er auðvitað svekktur með að tapa en þegar allt kemur til alls þá einfaldlega réðum við ekki við hraðann á Framliðinu hérna í kvöld.“

Jónatan breytti í 5-1 vörn í fyrri hálfleik og þá tókst KA/Þór að minnka fimm marka forskot Framliðsins og jafna metin en varnarlega fann KA/Þór aldrei taktinn í seinni hálfleik.

Martha Hermannsdóttir var öflug í liði KA/Þórs eins og venjulega …
Martha Hermannsdóttir var öflug í liði KA/Þórs eins og venjulega og skoraði tíu mörk gegn Fram í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Fram er með mjög góða vörn og góða markmenn sem vörðu mjög vel í leiknum. Vörnin okkar og markvarslan okkar í kvöld var ekki nægilega góð. Við hefðum þurft betri markvörslu í leiknum til þess að eiga meiri möguleika. Planið var að spila 5-1 vörnina í upphafi síðari hálfleiks en við náðum einhvern veginn aldrei að koma okkur almennilega í hana þar sem þær sóttu hratt á okkur og skoruðu mikið úr hraðaupphlaupum.“

KA/Þór er í fimmta sæti deildarinnar með 13 stig og segir þjálfarinn að markmiðið fyrir næstu leiki liðsins sé að halda áfram að safna stigum.

„Við erum áfram í hörkubaráttu og við þurfum einfaldlega að halda áfram að safna stigum til þess að tryggja veru okkar í deildinni. Sem nýliðar var fyrsta markmiðið okkar að halda sér í deildinni og 13 stig hingað til er gott en við þurfum að halda áfram,“ sagði Jónatan Þór Magnússon í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert