Ekki mikil hamingja í klefanum

Hrafnhildur Skúladóttir, þjálfari ÍBV.
Hrafnhildur Skúladóttir, þjálfari ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Ég er orðlaus og ég veit í raun ekkert hvað ég á að segja eftir þennan leik,“ sagði Hrafnhildur Skúladóttir, þjálfari ÍBV, í samtali við mbl.is eftir 39:27-tap liðsins gegn Fram í 16. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í Safamýrinni í kvöld.

„Við erum búnar að fá nokkra skelli í vetur og maður heldur alltaf að við komum til baka en það gerðist ekki í kvöld. Við höfum oft spilað góða leiki á móti Fram en við vorum mjög slakar í þessum leik og liðið skortir sjálfstraust, það er alveg ljóst, og það er mikið áhyggjuefni.“

ÍBV tók sér góðan tíma í hálfleik og voru leikmenn liðsins lengi að skila sér út á völlinn fyrir seinni hálfleikinn.

Ester Óskarsdóttir var markahæst í liði ÍBV í kvöld með …
Ester Óskarsdóttir var markahæst í liði ÍBV í kvöld með sex mörk. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Það var margt sem við ræddum í hálfleik og það var ekki mikil hamingja inni í klefa. Við komum ágætlega inn í seinni hálfleikinn og skorum átta mörk á fyrstu tólf mínútunum en þær voru líka að skora auðveld mörk á okkur á móti, mestmegnis úr hraðaupphlaupum. Við náðum að minnka muninn í sjö mörk en svo var það bara búið.“

Eyjastúlkur fengu á sig 39 mörk í kvöld og segir Hrafnhildur að varnarleikur liðsins þessa dagana sé mikið áhyggjuefni.

„Að fá á sig 39 mörk með þessa varnarmenn og markmenn sem við höfum er skelfilegt. Við erum með frábæra varnarmenn sem eru aðalmenn í landsliðinu og við eigum ekki að fá á okkur svona mörg mörk. Varnarleikurinn er mjög stórt áhyggjuefni fyrir okkur þar sem við vorum að spila mjög agaðan og flottan varnarleik fyrir áramót,“ sagði Hrafnhildur Skúladóttir í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert