„Þetta var fyrir áhorfendur“

Þórey Anna Ásgeirsdóttir með boltann gegn Haukum.
Þórey Anna Ásgeirsdóttir með boltann gegn Haukum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Brosið fór ekki af Þóreyju Önnu Ásgeirsdóttur, leikmanni Stjörnunnar, þegar mbl.is ræddi við hana eftir að liðið tryggði sér sæti í undanúrslitum bikarkeppninnar í handknattleik í kvöld. Framlengingu þurfti til í æsilegum leik gegn Haukum, 23:22, og Þórey tók undir að það væri ívið skemmtilegra að vinna svona.

„Já eiginlega. Það var spenna í þessu, en það hefði alveg verið þægilegt að klára þetta í venjulegum leiktíma. Þetta var fyrir áhorfendur,“ sagði Þórey Anna himinsæl.

Þórey Anna skoraði markið sem réð úrslitum, úr vítakasti á lokamínútu framlengingar. Áður hafði hún skorað úr fjórum vítum í leiknum, en var hún eitthvað stressuð fyrir þessu?

„Veistu ég hafði engar áhyggjur af þessu. Ég var ekkert stressuð heldur bara sett‘ann í markið. Þetta er ekkert flókið,“ sagði Þórey Anna.

Stjarnan byrjaði leikinn gríðarlega vel, komst í 4:0 en skoraði svo ekki í um 17 mínútur. Hvað fannst henni um spilamennskuna?

„Þær spiluðu fína vörn og við fundum engar lausnir í sókninni. Það tókst þó á endanum, og við spiluðum líka fína vörn sem hjálpaði mikið.“

Stjarnan situr í sjötta sæti deildarinnar með 11 stig og hefur ekki blandað sér í toppbaráttuna á tímabilinu. Gefa þessi úrslit liðinu aukinn kraft til þess að klára tímabilið á jákvæðum nótum?

„Já, guð minn góður! Nú erum við komnar í Höllina og við ætlum alla leið þar. Þó að úrslitakeppnin sé líka mjög skemmtileg þá væri gaman að fá einn bikarmeistaratitil,“ sagði Þórey Anna Ásgeirsdóttir við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert