„Höfum bullandi trú á okkur“

Geir Sveinsson fær áminningu í leiknum í Eyjum í kvöld.
Geir Sveinsson fær áminningu í leiknum í Eyjum í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Geir Sveinsson, þjálfari Akureyringa, var nokkuð sáttur við nokkra þætti í leik sinna manna í dag en liðið tapaði með fjögurra marka mun í Vestmannaeyjum 31:27.

„Það var margt jákvætt, ég var ánægður með vinnuframlag og annað, sem skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli. Við ætluðum okkur að ná í stig í dag, það gekk ekki eftir og auðvitað er ég ekki sáttur með að tapa.“

Gestirnir spiluðu fyrri hálfleikinn mjög vel og leiddu með einu marki þegar gengið var til búningsherbergja.

„Við getum tekið margt jákvætt úr fyrri hálfleik en því miður byrjum við seinni hálfleikinn ekkert ósvipað og við höfum byrjað flesta aðra hálfleiki, það kom okkur pínulítið í koll, eftir það vorum við að elta.“

Róbert Sigurðarson er á samningi hjá Akureyri en á láni hjá ÍBV og reyndist sínu uppeldisfélagi erfiður í dag.

„Já, eins og margir aðrir. Hákon er frábær leikmaður, 12 mörk, ég veit ekki hve mikið af því er úr vítum og hraðaupphlaupum en það er ekkert að því að leikmaður skori 12 mörk, ef þú nærð að loka á aðra. Það gekk þó ekki nægilega vel.“

Akureyri skorar 27 mörk í kvöld sem er oftar en ekki nóg til að vinna handboltaleiki.

„Við verðum fyrir skakkaföllum varnarlega og missum Ihor út, sem var búinn að vera frábær fyrir framan í vörninni og þurftum við því að endurskipuleggja okkur upp á nýtt. Það er erfitt að missa lykilleikmenn, ekki bara varnarlega heldur líka sóknarlega. Ihor er frábær leikmaður og við verðum að vona það að hann verði klár á sunnudaginn.“

Það eru einungis um 35 skot sem rata á mark gestanna í dag og liðið fær á sig 31 mark, það þýða einungis 4 varðir boltar samkvæmt því kerfi sem unnið er með í alþjóðahandbolta um þessar mundir.

„Þeir eru örlítið fleiri samkvæmt okkar statistík, en það er ljóst að munur er á milli liða hvað markvörslu varðar, ég held að flestir sem fylgjast með handbolta viti að markvarðarstaðan er mikilvæg. Auðvitað hefði maður kannski viljað sjá fleiri bolta varða, en þetta er bara svona.“

Leikirnir gerast vart stærri hvað botnbaráttuna varðar þegar Grótta mætir í heimsókn norður á Akureyri á sunnudag.

„Þetta er fjögurra stiga leikur eins og það kallast, við verðum að vera klárir í þann slag.“ Nú eru þrjú stig upp í öruggt sæti en hafa Geir og hans menn trú á því að ná að halda sæti sínu í deildinni?

„Já, við höfum bullandi trú á okkur, markmiðið er að halda okkur uppi og geta náð í sem flest stig af þeim sem eftir eru,“ segir Geir en eftir leikinn við Gróttu á Akureyri eftir að spila við Val, Stjörnuna, FH og ÍR.

mbl.is