Sigur gegn Slóvökum og Ísland í öðru sæti

Kvennalandsliðið í handknattleik.
Kvennalandsliðið í handknattleik. Ljósmynd/HSÍ

Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik hafnaði í öðru sæti á Baltic-mótinu sem lauk í Gdansk í Póllandi í dag. Í lokaumferðinni hafði Ísland betur á móti Slóvakíu 30:28.

Slóvakar voru yfir eftir fyrri hálfleikinn 17:14 en íslenska liðið mætti vel stemmt inn í seinni hálfleikinn og sneri leiknum sér í vil.

„Þetta var virkilega góður sigur hjá stelpunum í dag. Við byrjum leikinn vel en misstum svolítið taktinn og lentum mest fimm mörkum undir. Seinni hálfleikurinn var frábær af okkar hálfu þar sem vörnin small saman og Elín Jóna var virkilega góð í markinu. Það var ró og yfirvegun í sókninni og þetta skilaði okkur sigri,“ sagði Axel Stefánsson landsliðsþjálfari við mbl.is eftir leikinn.

Mörk Íslands: Þórey Rósa Stefánsdóttir 8, Karen Knútsdóttir 7, Ragnheiður Júlíusdóttir 3, Birna Berg Haraldsdóttir 2, Andrea Jacobsen 2, Thea Imani Sturludóttir 2, Steinunn Björnsdóttir 2, Perla Ruth Albertsdóttir 2, Arna Sif Pálsdóttir 1, Ester Óskarsdóttir 1.

Varin skot: Hafdís Renötudóttir 9, Elín Jóna Þorsteinsdóttir 10.

mbl.is